Formaður Leigjendasamtakanna segir að fólk sem gert er að taka á sig miklar húsaleiguhækkanir hafi þá leið að greiða ekki samkvæmt hækkaðri leigu heldur leggi gömlu upphæðina á biðreikning. Þetta kemur fram í ítarlegri grein í Fréttablaðinu í dag.
Þar segir Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Leigjendasamtakanna að hann hvetji leigjendur hjá Ölmu til að íhuga að hætta að greiða húsaleigu til félagsins. Þá hvetur hann almenning til að sniðganga allar vörur frá Langasjó, félaginu sem á Ölmu.
„Leigjendur hafa ýmis ráð og það er þekkt úrræði að hætta að borga leigu ef reynt er að okra á þeim,“ segir Guðmundur Hrafn í viðtalinu og heldur áfram.
„Á Spáni er algengt ef mikið ber á milli eftir hækkanir að leigjendur greiði leigu án hækkunar inn á biðreikning lögfræðinga í stað þess að hún renni beint til leigusala. Þetta gæti verið góð leið hér,“ segir Guðmundur Hrafn sem telur vel koma til greina að leigjendur hjá Ölmu beiti slíkum aðgerðum.
Ef íbúðafélagið Alma hefur hækkað leigu um 30 prósent á tímum þar sem verðbólga er undir 10 prósentum kallar það á athugun, að sögn Más Wolfgangs Mixa, hagfræðings og lektors við Háskóla Íslands. Segir jafnframt í greininni sem er ítarleg á vef Fréttablaðsins.