Með nýrri reglugerð Evrópusambandsins og Evrópuráðsins hefur Íslandi, ásamt öðrum ríkjum EFTA, verið tryggð bein aðild að sameiginlegum innkaupum Evrópusambandsins á lyfjum, lækningavörum og öðrum mikilvægum heilbrigðisaðföngum ef heilbrigðisvá steðjar að þvert á landamæri. Ísland verður þannig virkur þátttakandi í neyðar- og viðbragðsstjórnun Evrópusambandsins (HERA) sem styrkir stöðu þess varðandi öflun, innkaup og afhendingaröryggi aðfanga þegar þjóðir þurfa að bregðast sameiginlega við heilbrigðisvá.
Nærtækt dæmi um sameiginleg innkaup á vettvangi Evrópusambandsins eru kaup á bóluefnum gegn Covid-19. Ísland átti ekki beina aðild að þeim innkaupum heldur þurfti milligöngu Evrópusambandsríkis til að tryggja Íslandi bóluefni á grundvelli samninga Evrópusambandsins og tók Svíþjóð að sér það hlutverk. Ákvæði reglugerðar Evrópusambandsins (12. gr.) um sameiginleg innkaup tryggir aftur á móti beina aðild Íslands að sameiginlegum innkaupum sambandsins á heilbrigðisaðföngum vegna heilbrigðisvár ef á reynir. Ákvæðið felur ekki í sér skuldbindingu um þátttöku í sameiginlegum innkaupum en tryggir þann möguleika ef vilji er fyrir hendi.
Umræða