Lára Kristjánsdóttir býður sig fram til stjórnar SVFR. Hér er kynning Láru á framboði sínu en hún er reynd veiðikona sem hefur unnið við veiðileiðsögn laxveiðimanna, ein örfárra kvenna á Íslandi.
,,Síðustu daga hafa margir félagsmenn Stangaveiðifélags Reykjavíkur (SVFR) komið að máli við mig og hvatt mig til að gefa kost á mér til stjórnar SVFR vegna reynslu minnar af félagsstörfum. Mér þykir vænt um þessa hvatningu og met mikils þennan stuðning. Því hef ég ákveðið að bjóða fram krafta mína í stjórn SVFR. Ég er sagnfræðingur að mennt og hef auk þess starfað talsvert við bókhald og tel mig þar hafa glöggt auga, þekkingu og færni. Ég er fjölskyldumanneskja, gift, á þrjú börn og við öll erum áhugasamir veiðimenn.
Ég tel mig hafa margt fram að færa í stjórn félagsins. Ég þekki vel til félagsins og hef mikla reynslu af lax- og silungsveiði. Ég hef til dæmis starfað í kröftugri árnefnd Andakílsár undanfarin 15 ár. Ég er reynd veiðikona og hef veitt meðal annars í Norðurá, Langá, Andakílsá, Hítará, Laxá í Dölum, Laxá í Kjós, Elliðaánum, Laxá í Nesi, Stóru Laxá, Krossá, Minnivallalæk og Rangánum. Þá hef ég undanfarin ár unnið við veiðileiðsögn laxveiðimanna, ein fárra kvenna á Íslandi. Þessi verkefni hafa fært mér bæði reynslu og þekkingu sem ég vil deila með félaginu.
Ungir veiðimenn og ungar veiðikonur verða að fá sitt pláss í félaginu og mikilvægt er að SVFR sé í fararbroddi á þeim vettvangi. Auka verður möguleika fjölskyldna að geta farið til veiða gegn sanngjörnu verði. Þá gengur fleira ungt fólk í félagið sem styrkir það til framtíðar og þær grundvallar hugsjónir sem félagið byggir á.
Fyrir hvað stendur SVFR? Jú, félagið stendur fyrir félagsmenn sína og þeir eiga að vera í öndvegi og ganga fyrir.
Mér er umhugað um SVFR og ásýnd þess og legg áherslu á að stjórnin starfi á heiðarlegan og grandvaran hátt.
Ég mun vinna af alefli fyrir félagsmenn Stangaveiðifélags Reykjavíkur fái ég til þess brautargengi.
Ég er tilbúin.“ Segir Lára Kristjánsdóttir.