Þingvallavegur er opinn og ekki efni til að loka vegna þeirra aðgerða sem eru framundan við Ölfusvatnsvík í dag. Aðgerðir á vatninu í gær gengu afar vel og tókst björgunarliði að ná líkum allra þeirra fjögurra sem um borð í TF ABB voru. Líkin voru flutt til Reykjavíkur og komið þar fyrir í kapellu þar sem aðstandur komu og báru kensl á sitt fólk og áttu stund með þeim. Í framhaldi af því voru líkin flutt til krufningar.
Tekin var ákvörðun um að nota fjarstýrðan kafbát til að færa líkin upp til móts við kafara í gær. Ætlunin hafði verið að tryggja að allir þeir munir sem á þeim væru væru tryggðir með því að kafarar byggju um þau á botninum og lyfta þeim svo upp en við þær aðstæður sem voru á vettvangi í gær og þá stöðu að þurfa að vera með báta á vatninu til að halda því opnu þótti ekki rétt að eyða dýrmætum tíma í það. Því var gripið til þessa ráðs. Eftir skoðun í gærkvöldi virðist það ekki hafa haft áhrif á mikilvæga þætti við öflun gagna.
Aðgerðum á vatninu lauk um kvöldmatarleitið í gær. Viðbragðsaðilar voru komnir á vettvang snemma í morgun og eru aðstæður veðurfarslega góðar. Þar er nú 6 stiga frost og hægviðri. Hinsvegar hefur vatnið lagt á ný og er nú verið að kanna hvort þykktin á ísnum sé slík að bátar ráði ekki við að brjóta sér leið um vatnið. Vera kann að nauðsynlegt verði að fresta aðgerðum um lengri tíma ef ekki er unnt að vinna á ísnum nú.
Ákveðið hefur verið að hleypa fjölmiðlum inn á vinnusvæðið nú. Þeir gefa sig fram við lokun við Þingvallaveg og ganga þaðan niður í búðirnar. Þá hefur verið ákveðið að heimila takmarkað drónaflug fjölmiðla þannig að drónar taki á loft frá þessu sama bílastæði en stjórnendur þeirra hafi áður upplýst lögreglumönn við lokun um þá fyrirætlan. Þannig geta lögreglumenn náð á stjórnendur strax ef kalla þarf loftför niður vegna annarra vinnu.