Þrjátíu og fjögur nýsköpunar- og/eða rannsóknarverkefni fengu í dag styrkúthlutun úr Aski – mannvirkjarannsóknasjóði. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, afhentu styrkina við hátíðlega athöfn í húsakynnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).
Askur – mannvirkjarannsóknasjóður var stofnaður árið 2021. Hlutverk sjóðsins er að veita styrki til nýsköpunar – og mannvirkjarannsókna með áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum á sviði mannvirkjagerðar í samræmi við markmið laga um mannvirki. Sjóðurinn er fjármagnaður af innviðaráðuneytinu og háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytinu en umsýsla hans er í höndum HMS. Alls bárust 55 umsóknir í Ask í ár, sem samtals námu 401 milljón króna. Sérstakt fagráð var skipað til að meta umsóknir ásamt því að skila tillögu að úthlutun til innviðaráðherra sem veitir styrkina samkvæmt reglum sjóðsins.
„Askur – mannvirkjarannsóknasjóður gegnir mikilvægu hlutverki í að styðja við nýsköpun og rannsóknir á sviði mannvirkjagerðar á Íslandi. Það felast gríðarleg tækifæri í vistvænni mannvirkjagerð og sérstaklega ánægjulegt að sjá þennan mikla áhuga, þekkingu og hugmyndaauðgi sem einkennir þær umsóknir sem bárust. Stefna okkar er að sækja fram með auknum fjármunum í Ask á næstu árum,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.
Áhersla á nýsköpun og vistvæna mannvirkjagerð
Sjóðurinn veitir styrki í fimm áhersluflokkum sem snúa einkum að samfélagslegum áskorunum í byggingariðnaði, svo sem rakaskemmdum í mannvirkjum og aðgerðum til lækkunar kolefnisspors. Við hverja úthlutun er horft til þarfa, eðlis og áskorana á sviði mannvirkjagerðar, áherslu á nýsköpun og markmiða um sjálfbærni.
Áætlað er að byggingariðnaðurinn beri ábyrgð á 30-40% af allri losun á heimsvísu og því ljóst að þar liggja tækifæri til úrbóta enda eiga flest verkefnin það sammerkt að hafa umhverfislegan ávinning. Mörg verkefni sem hljóta styrk leggja sitt af mörkum til að ná markmiðum verkefnisins Byggjum grænni framtíð sem er samstarfsverkefni stjórnvalda og hagaðila byggingariðnaðarins um vistvænni mannvirkjagerð, en það á meðal annars rætur að rekja til aðgerðaáætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum.
Samstarf háskóla og atvinnulífs
Sjóðnum, sem rekinn er af HMS, er ætlað að styrkja stoðir byggingariðnaðarins í samstarfi við háskólasamfélag og atvinnulíf. Með stofnun Asksins leitast stjórnvöld við að opna opinbert styrkjaumhverfi fyrir fleiri aðilum úr háskólasamfélagi og atvinnulífi og einnig að stuðla að auknu samstarfi við erlenda rannsóknaraðila. Ríflega helmingur styrkþega eða 56% er úr atvinnulífinu, 21% háskólunum og 12% styrkþega eru einstaklingar.
Háskólanum í Reykjavík var nýlega veitt 200 m.kr. fjárveiting af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra til fjármögnunar undirbúnings að uppbyggingu á rannsókna- og nýsköpunarhúsi við skólann. Húsið er lykillinn að frekari sókn háskólans í rannsóknum og kennslu í tæknigreinum og verður sérstök áhersla lögð á aðstöðu fyrir öflugar byggingarannsóknir. Með þessu verður betur hægt að hlúa að hagnýtu og verktengdu námi auk þess sem unnt verður að bjóða upp á betri aðstæður til byggingarannsókna en áður hefur þekkst hér á landi.
„Askur hefur sýnt hvað hann er mikilvægur hlekkur á sviði rannsókna og nýsköpunar í bygginga- og mannvirkjagerð. Það er ánægjulegt að geta kynnt fjárveitingu til að styrkja uppbyggingu á nýju rannsókna- og nýsköpunarhúsi við Háskólann í Reykjavík sem mun efla aðstæður til mannvirkjarannsókna hér á landi. Uppbyggingin við Háskólann í Reykjavík mun gjörbylta allri aðstöðu til kennslu, rannsókna og nýsköpunar við skólann. Samhliða því verður hægt að bjóða upp á betri aðstæður til byggingarannsókna en áður hefur þekkst hér á landi,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
„Byggingarrannsóknir og nýsköpun efla hugvit, gæði og heilnæmi húsakosts landsmanna ásamt því að skapa eftirsóknarverð atvinnutækifæri og leggja mikið af mörkum í baráttu við loftslagsvandann. Stærstu fjárfestingar í landinu eru í mannvirkjagerð og því er afar mikið í húfi fyrir iðnaðinn, ríki, sveitarfélög og heimilin í landinu að rannsóknir, nýsköpun og fræðsla styrkhafa verði efld til að styðja betur við faglega mannvirkjagerð. Það er sterkt ákall frá iðnaðinum og Askssamfélaginu um aukin framlög í Ask til að ná aukinni samvirkni og framförum í iðnaðinum,“ segir Hermann Jónasson, forstjóri HMS.
Nánari upplýsingar ásamt upplýsingum um verkefni og styrkþega má finna á vefsíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.