BaseParking bönnuð birting fullyrðinga um ódýrustu bílastæðin
Neytendastofu barst kvörtun frá Isavia yfir fullyrðingum í markaðssetningu BaseParking og ófullnægjandi upplýsinga um þjónustu BaseParking á vefsíðu félagsins.
Kvörtun Isavia snéri að fullyrðingu BaseParking um að félagið byði ódýrustu bílastæðin við flugstöðina. Gerði Isavia tvíþættar athugasemdir við fullyrðinguna, annars vegar að bílastæði BaseParking væru ekki við Flugstöð Leifs Eiríkssonar heldur í um það bil 10 km fjarlægð á Ásbrú og hins vegar að þjónusta Isavia væri ódýrari fyrstu fjóra daga notkunar bílastæðanna.
Þá kvartaði Isavia yfir því að á vefsíðu BaseParking kæmu hvorki fram fullnægjandi upplýsingar um að kaup á „valet“ þjónustu væru skilyrði fyrir nýtingu bílastæða BaseParking né um það hvernig tryggingum væri háttað á meðan bifreið væri í umsjá þeirra.
Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að fullyrðing BaseParking um ódýrustu bílastæðin við flugstöðina væri villandi gagnvart neytendum þar sem þjónustan væri ekki ódýrari en þjónusta Isavia nema áætlað sé að skilja bílinn eftir lengur en sex daga, m.v. nýjustu verðskrárbreytingar. Stofnunin taldi ekki villandi að vísa til þess að bílastæðin væru við flugstöðina þar sem þjónustan er veitt þar en stofnunin taldi þó þörf á að gerð væri með skýrari hætti grein fyrir því að bifreiðar séu geymdar við Ásbrú.
Neytendastofa taldi upplýsingar á vefsíðu félagsins einnig villandi þar sem skorti upplýsingar um skilyrði kaupa á „valet“ þjónustu og um ábyrgð BaseParking á bifreiðum í þeirra umsjá.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.
https://gamli.frettatiminn.is/2018/03/02/bilastaedi-i-keflavik-haekkar-i-1-750-kr-a-dag-en-940-kr-ef-pantad-er-a-netinu/