Nú eru tvær vikur undir í samantektinni en á þeim tíma hafa 76 ökumenn verið kærðir fyrir að aka of hratt í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Álagðar sektir vegna þessara brota nema um það bil 6,5 milljónum króna og ljóst að einhvern „svíður í budduna“ undan þeim. Tuttugu og einn af þessum ökumönnum sæta sektum sem eru á bilinu 120 til 150 þúsund krónur. Flestir þeirra sem óku of hratt eru vestanmegin í umdæminu en ekki er að sjá mun á mældum hraðað almennt eftir svæðum.
Einn ökumaður er grunaður um að hafa ekið undir áhrifum áfengis og 4 eru grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Einn þessara fjögurra var með barn sitt í bílnum og fengu barnaverndaryfirvöld þann þátt til úrvinnslu líkt og lög mæla fyrir um.
7 umferðaróhöpp voru tilkynnt lögreglu, öll án teljandi meiðsla. Á Flateyjaraurum í Sveitarfélaginu Hornafirði valt grafa, þann 28. apríl, út af vagni þegar vegkantur gaf sig undan þunga flutningsins. Þann 3. maí varð árekstur með tveimur bifreiðum sem ekið var um Suðurlandsveg vestan Ölfusárbrúar. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar kvaðst hafa verið að „aflæsa símanum“ sínum og fipast við aksturinn við það og þannig ekið yfir á öfugan vegarhelming.
4 mál komu upp þar sem tilkynnt var um sinueld eða eld í gróðri. Eldar þessir hafa verið slökktir og ekki sérstakir eftirmálar af þeim en ástæða er til þess að vara við því að gróður er víða þurr og hætta á hraðri útbreiðslu elds ef hann kviknar í gróðrinum.
Þann 6. maí kom upp eldur í fjárhúsum á bæ í Mýrdal. Vísbendingar eru um að eldsupptök hafi verið í raftæki en það er enn til rannsóknar. 3 fullorðnar ær og 4 lömb drápust í brunanum. Öðrum fénaði tókst bændum að bjarga út úr brennandi húsunum.
Umtalsverð vinna hefur verið unnin í kring um Covid faraldur sem öllum er nú kunnugt um. Enda þótt reglur um samkomubann hafi verið rýmkaðar er ennþá full ástæða til þess að fara varlega og gæta þess að fylgja þeim reglum sem í gildi eru. Í upphafi var sagt að við værum öll almannavarnir. Það hefur ekkert breyst og árangurinn sem náðst hefur og nú þarf að verja byggir algerlega á því að allir leggist á eitt og gæti að sóttvörnum.
Um liðna helgi voru margir á ferðinni. Rúmlega 11 þúsund bílar fóru um Hellisheiði bæði á laugardag og sunnudag og rúmlega 3000 bílar um teljara austan við Hellu og víða þar sem fólk kom saman mátti sjá að örlítil aðgæsla hefði ekki skaðað a.m.k. Lögreglan á Suðurlandi hvetur fólk til þess að sýna aðgæslu í verki svo við lendum ekki í bakslagi eins og virðist vera að gerast í nálægum löndum. Það er til mikils að vinna og þú berð ábyrgð eins og allir hinir.