Miðvikudaginn 5. maí sl. var opnað hjá Ríkiskaupum forútboð vegna smíði á nýju rannsóknaskipi sem mun koma í stað rs. Bjarna Sæmundssonar. Alls lýstu átta skipasmíðastöðvar áhuga að taka þátt í útboðinu. Gert er ráð fyrir að samið verði um smíði skipsins fyrir 1. nóvember nk. og smíði þess geti hafist í kjölfarið. Smíðatíminn er áætlaður tvö ár og því er gert ráð fyrir að skipið komi til landsins síðla árs 2023. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gerði grein fyrir málinu á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.
Gert er ráð fyrir svokölluðu samkeppnisútboði sem gefur möguleika á viðræðum við boðendur og aðlögun vegna tilboða. Samhliða því að unnið er að hæfnismati á skipasmíðastöðvunum. Þegar þeirri vinnu verður lokið mun útboð um smíði skipsins fara fram og þær stöðvar sem standast hæfnismat fá að taka þátt í því útboði.
Fyrirhugað er að útboðsferlið hefjist 1. júní nk. með útsendingu útboðsgagna og að opnun útboða verði tveimur mánuðum síðar. Að því loknu tekur við vinna við að meta tilboðin og ganga til samninga. Ætlað er að það taki um tvo til þrjá mánuði.
Við hönnun á nýju rannsóknaskipi fyrir Hafrannsóknastofnun hefur verið horft til ýmissa leiða til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Hægt verður að brenna lífdísil (t.d. repjuolíu) og er þeim möguleika haldið opnum í hönnun að gera ráð fyrir plássi fyrir búnaði sem þarf til ef hentugar vélar til brennslu metanóls verði komnar í framleiðslu á smíðatímanum. Innan skips verður leitað allra leiða til að spara orku. Til lýsingar er notuð LED tækni, spilbúnaður skipsins verður rafdrifinn, til upphitunar verður notuð afgangsorka frá kælivatni aðalvéla og vistarverum skipt upp þannig að einungis verði loftræstar þær sem eru í notkun hverju sinni. Skipið verður við landrafmagn og gert er ráð fyrir að settir verði upp varmaskiptar í heimahöfn skipsins þannig að skipið verði hitað upp með vatni frá hitaveitu.
https://gamli.frettatiminn.is/09/03/2021/veidigjoldin-duga-ekki-fyrir-nyju-vardskipi-88-milljarda-reikningur-til-skattgreidenda/