Birgitta Jónsdóttir er mjög ósátt við að hafa verið sett á lista hjá framboði sem hún hefur enga aðild að. Það vekur jafnframt furðu að bréfið sem er á bréfsefni Reykjavíkurborgar er ótrúlega illa úr garði gert. Á yfirlýsingunnni er ekki einu sinni gerð krafa um að viðkomandi riti kennitölu, heimilisfang, síma eða netfang. Þá er jafnframt ekki farið fram á neina votta að undirritun. Þá er enginn sem er ábyrgur fyrir móttöku skjalsins og staðfesta rétta undirritun.
Að sögn lögmanns sem Fréttatíminn ræddi við, ,,þá er þetta ómerkilegur og illa gerður snepill, sennilega af amatör með enga lögfræðikunnáttu og þess vegna býður snepillinn upp á svona misnotkun. Ótrúlegt að stjórnvald standi svona að málum árið 2022, hvað með t.d. rafræn skilríki og fleira sem er í boði í dag? Eftirlit með þessum atriðum skv. kosningalögum virðist hafa brugðist“ sagði lögmaðurinn.

Birgitta Jónsdóttir fjallar á vef sínum um málið: ,,Átti ágætan fund með yfirkjörstjórn í dag. Vegna þess að aldrei hefur áður komið upp sú staða að manneskja sé fölsuð inn á lista framboðs hefur yfirkjörstjórn engin lagaleg úrræði til að fella nafn mitt út af listanum. Ég harma það að vera í vistarböndum á lista sem ég mun ekki einu sinni kjósa og stóð aldrei til að kjósa.
Ég harma að málið sé á þeim stað að þeir sem bera ábyrgð á skjalafalsi sem og fölsun nafns inn á lista hafi ekki séð að sér og sýnt vilja til að gagnast við þessum broti. Slík vinnubrögð er ekki hægt að láta óafskipt, því er það niðurstaða fundarins að ég óskaði eftir að þetta væri sett í lögformlega rannsókn.
Ljóst er að laga þarf verklag og ferla hjá kjörstjórnum til að tryggja að svona lagað geti ekki átt sér stað. Það er því ánægjuefni að þetta ömurlega mál gefur tilefni til að gengið verði í úrbætur. Ég var spurð útí af hverju ég vissi ekki af þessu fyrr og svarið er nokkuð augljóst: ég hefði aldrei vitað af þessu, ef blaðamaðurinn Kristján Kristjánsson hefði ekki hringt í mig til að spyrja mig út í meint framboð í gær.
Ég legg það ekki í vana minn að skoða alla mögulega framboðslista, sér í lagi ekki lista sem ég hef engan áhuga að kjósa. Það er mjög alvarlegt ef ferlar í kringum kosningar séu ekki hafnir yfir allan vafa, eins og raunin var í kringum síðustu Alþingiskosningar. Vegna þess hve mikilvægt að þessi ferli séu fagleg og séu traustsins verð finnst mér nauðsynlegt að bregðast við þessari stöðu.
Síðan er líka vert að halda því til haga að ef maður skrifar undir viljayfirlýsingu um að framboð megi bjóða sig fram, þá er það bara það: viljayfirlýsing: það er ekki stuðningur við framboð. Þeir sem hafa séð undirskrift mína vita að þessi er ekkert lík minni 🙂“
Discussion about this post