Miðflokkurinn er búinn að leggja fram frumvarp um að húsnæðisliðurinn verði tekinn út úr vísitölunni
Þorsteinn Sæmundsson sagðist fyrst af öllu þakka upphafsmanni þessarar umræðu á Alþingi og fjármálaráðherra fyrir að þetta mikilsverða mál væri komið til umræðu. ,,Það kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra að víst sé í stjórnarsáttmála gert ráð fyrir markvissum skrefum til þess að afnema verðtryggingu, en áform séu ekki um að fara í það alveg á næstunni. Þetta er leiðarstef hjá ríkisstjórninni. Eiginlega í flestum málum eru áform uppi, en það stendur alls ekki til að fara í þau í næstu framtíð.
Þegar neyð ríkisstjórnarinnar er stærst þá er hjálpin næst. Miðflokkurinn er búinn að leggja fram frumvarp um að húsnæðisliðurinn verði tekinn út úr vísitölu. Það frumvarp er núna í efnahags- og viðskiptanefnd og er ekkert að vanbúnaði að taka það þaðan út og færa inn í þingsal þannig að við getum átt um það umræður.
Það hefur komið í ljós í djarfmannlegri innfærslu formanns Framsóknarflokksins að sá flokkur hafi ætíð stutt það að húsnæðisliðurinn færi út úr vísitölu og þá er alveg ljóst að þar sem Miðflokkurinn og Framsóknarflokkurinn og auðvitað Flokkur fólksins eru hlynntir því að þetta mál verði tekið þessum tökum, ég á von á því að Píratar jafnvel geri það líka, er hér breið samstaða til þess að hjálpa ríkisstjórninni í þessu máli, hæstv. ráðherra.
Það er liggur því beinast við að þessu máli um að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölu þeirri sem lögð er til grundvallar þegar húsnæðislán eru tekin verði einfaldlega hraðað í gegnum efnahags- og viðskiptanefnd, það verði tekin hér góð umræða og málið að endingu samþykkt mjög fljótt. Þar með er málið leyst, hæstv. ráðherra, og verður okkur öllum til sóma.“ Sagði Þorsteinn Sæmundsson
Fleiri tóku til máls um verðtrygginguna: Ágúst Ólafur Ágústsson hjá Samfylkingunni hafði þetta um málið að segja: ,,Fyrir hartnær tíu árum töpuðu venjuleg íslensk heimili stórfé, töpuðu sparifé sínu, 90% af hlutabréfamarkaðnum hurfu og lánin okkar ruku upp úr öllu valdi, m.a. vegna verðtryggingarinnar.
Besta leiðin gegn of háum vöxtum er heilbrigt og stöðugt efnahagslíf. Sá stöðugleiki hefur ekki verið fyrir hendi.
Í fyrsta lagi hafa þrjár síðustu ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins sprungið. Slíkur pólitískur óstöðugleiki af hálfu Sjálfstæðisflokksins skapar efnahagslegan óstöðugleika.
Í öðru lagi liggur grunnvandi hárra vaxta og verðtryggingar í gjaldmiðlinum. Fram hjá þeirri staðreynd verður bara ekki komist. Að sjálfsögðu tengist þetta. Þeir sem eru á móti verðtryggingunni verða að taka umræðuna um gjaldmiðilinn.
Það er ljóst að krónan er og hefur verið slæmur förunautur öll þessi ár. Nú sjáum við að raungengi hefur aldrei verið eins sterkt en raungengi íslensku krónunnar hefur sveiflast mest allra vestrænna gjaldmiðla undanfarin 15 ár. Ég velti fyrir mér hvort ekki hljóti að vera nógu erfitt að vera í viðskiptum á Íslandi þótt ekki bætist við sú staðreynd að maður helst að vera gjaldeyrissérfræðingur í viðbót.
Við eigum að hætta að nýta gengisfellingar sem viðbragð við efnahagsástandinu, enda er það almenningur sem borgar alltaf brúsann. Við gengisfellingu borgar almenningur brúsann.
Lausnin er því í nýjum gjaldmiðli. Í því sambandi kemur einungis einn kostur til greina að mati langflestra sérfræðinga og það er evran með aðild að Evrópusambandinu, enda er það leið sem 19 þjóðir í Evrópu hafa kosið að fara. Á meðan við höfum krónuna munum við brúa við verðtrygginguna og oft hærri vexti en aðrar þjóðir. Það er bara svo einfalt.
Að tala um krónu án verðtryggingar er eins og að tala um pylsu án kóks. Það er ekki hægt að aðskilja þetta tvennt þótt hvort tveggja sé manni óhollt.