6.8 C
Reykjavik
Föstudagur - 31. mars 2023
Auglýsing

Alþingi hunsar leiðréttingu á stjórnarskrárbroti

Auglýsingspot_img
Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

Valdimar H Jóhannesson skrifar

Nú nærri 24 árum eftir að Hæstiréttur Íslands kvað upp dóm í máli mínu gegn íslenska ríkinu vegna synjunar á umsókn minni um fiskiveiðileyfi og aflaheimildir, hefur Alþingi ekki enn leiðrétt stjórnarskrárbrotin, sem felast í lögum um stjórn fiskveiða og framkvæmd þeirra.

Í dómi Hæstaréttar í máli  nr. 145/1998  fimmtudaginn 3. desember, var einróma niðurstaða allra fimm dómaranna, að lög um stjórn fiskveiða nr 38/1990 brytu í bága við 65. og 75. grein stjórnarskrárinnar, þ.e. gegn jafnræðisreglu og atvinnufrelsi og að ríkisvaldinu hafi því ekki verið heimilt að hafna umsókn minni um veiðileyfi og aflaheimildir með tilvísun til laganna.

Ekki verður þrískipting ríkisvaldsins skilin með öðrum hætti en að  löggjafavaldinu hafi þá verið skylt að breyta svo lögum að þau stæðust Stjórnarskrá Íslands. Það hefur ekki verið gert þó að margar aðrar breytingar hafi verið gerðar á lögunum, sem heita núna lög nr 116/2006.

Hæstiréttur Íslands – Einróma niðurstaða allra fimm dómara Hæstaréttar um að lög um stjórn fiskveiða brjóti gegn Stjórnarskrá Íslands.

Enginn tekur sæti á Alþingi án þess að sverja þess eið að halda stjórnarskrána. Það hvílir því tvöföld skylda á sérhverjum þingmanni nú og hefur gert það í tæp 24 ár að bregðast við þessum galla laganna, bæði vegna dómsins og svo frumkvæðisskyldan að gæta þess að lög landsins samrýmist stjórnarskránni.

Óhollusta við stjórnarskrána núna verður ekki afsökuð með óheilindum fyrri þingmanna og þá sérstaklega þeirra sem sátu á Alþingi í desember 1998.

En það er ekki einasta stórnarskráin sem rekur á eftir að gengið verði í það verk að hreinsa þennan smánarblett af Alþingi Íslendinga heldur er einnig alveg ljós andstaða þjóðarinnar við núverandi kvótakerfi, sem byggir á nefndum lögum. Nýleg viðhorfskönnun leiddi m.a. í ljós að þrír fjórðu hlutar þeirra sem afstöðu tóku voru andvígir fiskveiðikerfinu svipað og verið hefur mestan hluta kvótatímans eða í fjóra átatugi. Þingmenn sitja á Alþingi í umboði þjóðarinnar. Þeir eru kosnir til að framfylgja vilja hennar. Þar kemur þriðja ríka ástæðan til að leiðrétta lög um stjórn fiskveiða og fara að vilja eiganda fiskveiðiauðlindarinnar, sem er íslenska þjóðin sbr 1. grein nefndra laga:

  1. gr.
    Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.
Bátur án heimildar til fiskveiða – Þorskaflinn á Íslandsmiðum hefur verið aðeins 40% af því sem hann hafði verið áratugum saman fyrir daga kvótakerfisins

Algjörlega fráleitt er að nokkur aðili með einhverja þekkingu á þessum málum finnist, sem áttar sig ekki á því að markmið þessarar greinar hefur á engan hátt gengið eftir. Greinin er hrein öfugmæli við ríkjandi ástand.

Kvótakerfið hefur leitt til minni hefðbundins afla og stuðlar hreint ekki að hagkvæmri nýtingu. Þorskaflinn á Íslandsmiðum hefur verið aðeins 40% af því sem hann hafði verið áratugum saman fyrir daga kvótakerfisins. Það er fjórða ríka ástæðan til að breyta lögunum. Þorskaflinn, sem hefur verið hafður af þjóðinni, samsvarar um 100 milljörðum króna á ári upp úr sjó en meira en tvöfalt hærri upphæð í útflutningsverðmætum fyrir utan afleiddar tekjur hagkerfisins, sem ella skiluðu sér margfalt inn í þjóðartekjurnar. Og þarna erum við bara að miða við þorskinn. Það sama á við um annan hefðbundinn afla.

Fimmta ríka ástæðan fyrir alþingismenn til þess að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu er að hvata vantar til nýsköpunar í nýtingu auðlindarinnar. Ýmsar sjávarafurðir eru hreinlega ekki nýttar. Þarna má tilgreina ýmislegt gamalkunnugt eins og skelfisk ýmis konar, hákarl, sæbjúgu, smokkfisk en ekki síður ýmist sem tillheyrir grundvallarlífi hafsins eins og áta og sjávargróður. Þarna fara í súginn mikil verðmæti og um leið tækifæri fyrir unga menn að vinna að nýsköpun sem er sjötta ríka ástæðan fyrir alþingismenn að reka nú af sér slyðruorðin, sem eru orðin þeim til rækilegrar skammar.

Sjöunda ríka ástæðan fyrir alþingismenn er að breyta svo fiskiveiðistjórninni að brottkast afla í stórum stíl yrði stöðvað. Allir, sem ekki hafa hag af ósannindum, viðurkenna að brottkast er mjög mikið í núverandi kvótakerfi. Kvótastýring bókstaflega kallar á brottkast afla til að hámarka nýtinguna á takmörkuðum kvóta.

Jafnvægi í byggð landsins er síðan áttunda ríka ástæðan til að leiðrétta gjafakvótakerfið sem riðlaði byggðum landsins með stórkostlegu eignatjóni fólks víða í byggðum landsins.

Níunda ríka ástæðan fyrir alþingismenn væri svo að stuðla að réttlátu samfélagi en almennt réttlæti í samfélögum eru mikilvæg verðmæti sem ekki ættu að gleymast. Tíunda ríka ástæðan fælist svo loks í vellíðan þingmanna við að láta gott af sér leiða. „Gjör rétt, – þol ei órétt“ ætti að vera leiðarstef allra þingmanna en ekki aðeins innihaldslaust slagorð nokkkurra þeirra.

Ég veit að það hefur vafist fyrir fulltrúum þjóðarinnar á Alþingi að sjá hvað koma ætti í staðinn fyrir núverandi kvótakerfi. Ljóst er að ýsmar leiðir eru vænlegar og myndu leiða til stóraukinna tekna fyrir þjóðarbúið. Ef gætt er að réttum leikreglum hafa allar leiðir sem kæmu til greina þann stóra kost að fulltrúar þjóðarinnar í umboði hennar gætuð þreifað sig áfram með hagkvæmar leiðir og hugsanlega myndi í framtíðinni finnast hin eina rétta leið. Ég eins og eflaust margir kunnáttumenn á þessu sviði treysti mér til að velta upp nokkrum möguleikum ef þess er óskað.

Svo vel vill til að að það er engum vafa undirorpið að þjóðin á nyjastofnana eins og segir í upphafi l. greinar laganna. Því getur ekki ríkt neinn ágreiningur um rétt Alþingis til að breyta reglum um stjórn fiskveiða.

Einnig má benda á að í dómi Hæstaréttar nr 12/2000, svokölluðum Vatneyrardómi 6. apríl 2000, kemur fram það álit að engin fyrirstaða sé til þess breyta reglunum. Í Vatneyrardóminum kemur m.a. fram að Alþingi geti vikið til hliðar ákvæðum stjórnarskrárinnar um stundasakir til að afstýra vá eins og meint ofveiði hafi þá verið á Íslandsmiðum. Enginn getur haldið því fram að ástand fiskistofna landsins réttlæti slíkt um fjóra áratugi. Ástandið réttlætti raunar aldrei þessi ósköp enda var ekki um neina vá að ræða, hvorki þá né núna.

Hér hafa verið tilgreindar 10 ríkar ástæður fyrir alþingismenn að bregðast við. Hver og ein hefði verið næg ástæða. Nú er mál að linni og þó miklu fyrr hefði verið.