Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur gefið út reglugerð nr. 669/2018 um breytingu á byggingareglugerð, nr. 112/2012. Reglugerðin varðar breytingar sem tengjast orkuskiptum í samgöngum.
Nú er lögð sú skylda á hönnuði íbúðarhúsnæðis að gera ráð fyrir tengibúnaði vegna hleðslu rafbíla við hvert bílastæði. Við annað húsnæði skal í hönnunargögnum sýna hvar slík tenging er möguleg. Í frétt ráðuneytisins er sagt að með þessari breytingu á byggingareglugerðinni sé verið að leggja áherslu á mikilvægi orkuskipta í samgöngum,
þó gerðar séu minni kröfur varðandi aðrar byggingar en íbúðarhúsnæði. Í fréttinn segir að gert sé ráð fyrir að Mannvirkjastofnun gefi út leiðbeiningar um framkvæmdina.
FÍB fór fram á breytingar í anda þessara ,,nýju“ reglugerðar fyrir um 20 árum í samvinnu við Landvernd og fleiri aðila. Herferðin þá tengdist átaki og hvatningu til bíleigenda að nota mótorhitara sem eru raftengdir og tímastýrðir. Þessi búnaður krefst aðgangs að rafmagnstenglum á bílastæðum. Við stuttar bílferðir sparast allt að 20% eldsneytisnotkun og bílvélar slitna minna. Á þessum tíma lögðu samtökin einnig áherslu á það í erindum og á fundum m.a. með umhverfisráðherra og borgarstjóra að aðgengilegur raftengibúnaður við nýbyggingar væri einnig nauðsynlegur til að byggja undir framtíðar orkuskipti í samgöngum.
FÍB hefur ítrekað lagt að yfirvöldum að breyta byggingareglugerð. Þessi breyting er fagnaðarefni en FÍB gerir alvarlegar athugasemdir við það að reglugerðin nær aðeins yfir íbúðarhúsnæði en undanskilur að stórum hluta atvinnuhúsnæði.
FÍB hefur ítrekað lagt að yfirvöldum að breyta byggingareglugerð. Þessi breyting er fagnaðarefni en FÍB gerir alvarlegar athugasemdir við það að reglugerðin nær aðeins yfir íbúðarhúsnæði en undanskilur að stórum hluta atvinnuhúsnæði.
Umræða