Andri Rafn Ottesen, nýútskrifaður kennari frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands, kynnti rannsókn sína og lokaverkefni „Eftirsóttasti minnihlutahópurinn: Fyrstu mánuðir kennslukarla í starfi“ fyrir Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra. Í meistaraverkefni sínu fylgdi Andri Rafn eftir fjórum nýbrautskráðum kennslukörlum fyrstu mánuði þeirra í starfi í íslenskum grunnskólum og var markmið hans að kanna hvernig þeim gengi að laga sig að nýjum starfsvettvangi.Hann skoðaði einnig hvað reyndist þeim auðvelt í starfi og hvaða áskoranir kæmu fram á fyrstu mánuðunum og hvernig þeir unnu úr þeim. Enn fremur kannaði Andri Rafn hvernig kyn eða kyngervi birtist í frásögnum þeirra.Körlum hefur fækkað verulega í stétt kennara, ekki aðeins hér á landi heldur er það tilhneiging víðar að konur séu í meirihluta kennara á flestum skólastigum. „Nýliðun í kennarastétt er ein þeirra áskorana sem við stöndum frammi fyrir í íslensku menntakerfi. Til þess að efla menntun, og þar með samkeppnishæfi okkar til framtíðar, er mikilvægt að við styðjum vel við kennarana okkar og til þeirra starfa komi hæft og fjölbreytt fólk. Grundvöllur allrar fagmennsku er góður kennari,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir sem fagnaði framtaki Andra Rafns þegar hann afhenti henni eintak af niðurstöðum sínum. Í verkefninu kemur meðal annars fram að kennararnir sem rætt var við væru allir mjög sáttir við sína fyrstu önn í kennslu og stefndu á að vinna áfram sem kennarar, þeir sögðu að kosturinn við starfið væri að það væri oftast mjög gefandi og skemmtilegt og byði upp á mikla fjölbreytni. „Viðmælendur mínir voru nokkuð sammála um hvað reyndist þeim auðvelt og hvað hefði verið erfitt þessa fyrstu mánuði. Þeim fannst frekar auðvelt að tengjast og kynnast nemendahópnum á meðan foreldrasamskiptin voru það sem ullu þeim mestum kvíða. Það kom þeim einnig á óvart að þeir fengu minni leiðsögn í starfi en þeir bjuggust við,“ sagði Andri Rafn og gat þess að gagnlegt væri að fjalla nánar og markvissar um foreldrasamstarf í námi kennarar sem og auka leiðsögn og utanumhald þegar þeir koma til starfa.Aðspurður um mikilvægi þess að fjölga karlkennurum segir Andri Rafn mikilvægast sé að fjölbreytni sé í hópi kennara svo þeir geti sem best mætt þeim fjölbreytta nemendahóp sem situr í skólastofum landsins: „Það þarf því ekkert endilega að leggja megináherslu á kennslukarla heldur einnig kennara á ólíkum aldri og með ólíkan bakgrunn. En það er Ijóst að við verðum að fá fleiri til að mennta sig sem kennara og þurfum að halda vel utan um þá sem stíga sín fyrstu skref í kennslu.“