Tímabært fyrir atvinnulífið að hefja aðlögun að erfiðara rekstrarumhverfi
Það er orðið tímabært fyrir einkarekin atvinnufyrirtæki í landinu að hefja aðlögun að breyttu og erfiðara rekstrarumhverfi. Þótt óvissa sé um launaþróun á næstu misserum og kjarasamningar í uppnámi að óbreyttu er ljóst að breytingin verður til hins verra en ekki til hins betra. Launakostnaður mun hækka. Hann mun leiða af sér aukna verðbólgu, afborganir fólks og fyrirtækja af verðtryggðum lánaskuldbindingum munu þyngjast, verðlag hækka og almenn neyzla dragast saman.
„Síldin“ er að byrja að hverfa eins og ferðaþjónustan finnur fyrir og ástæðulaust fyrir einkafyrirtæki að bíða og sjá hvað gerist. Það eru erfiðari rekstraraðstæður framundan, hvernig sem það verður.
Hið sama á að sjálfsögðu við um opinberan rekstur, þótt það verði erfiðara að koma þeim, sem byggja þann rekstur á skattfé almennra borgara í skilning um það.
Endurreisn innviða samfélagsins eftir hrun er ekki lokið og það má ekki stöðva hana en það er ríkt tilefni til að stöðva óþarfa sóun og eyðslu í opinberum rekstri. Ríkisstjórnin ætti að byrja á því að setja á ráðningastopp í ráðuneytum og setja nýjar reglur um bifreiðahlunnindi í opinbera kerfinu. Það geta verið rök fyrir því í sumum tilvikum að ákveðnum störfum fylgi afnot af bifreiðum en þær þurfa ekki að kosta 10-15 milljónir hver með þeim auknarekstrarkostnaði sem þeim fylgir. Og þannig mætti lengi telja.
Þetta á raunar bæði við um ríki og sveitarfélög og stöku dæmi um að skilningur á þessu sé að vakna hjá einstökum sveitarfélögum.
Hinn almenni borgari getur lagt sitt af mörkum til þess að koma forráðamönnum ríkis og sveitarfélaga í skilning um þetta með þrýstingi, hvort sem er á vinnustöðum, samskiptamiðlum eða á fundum í flokksfélögum einstakra stjórnmálaflokka.
„Þau“ munu taka eftir því. “ Segir Styrmir Gunnarsson, f.v. Ritstjóri Morgunblaðsins.