Um miðjan dag í gær var tilkynnt til lögreglunnar á Suðurlandi um undarlegan hlut á floti á sunnanverðu Þingvallavatni, nærri Villingavatni.
Lögreglan fór á vettvang ásamt björgunarsveitum af svæði 3 og fannst fljótlega eins manns kajak, uppblásinn og með honum flaut bakpoki. Við skoðun á bakpokanum kom í ljós að eigandi hans er erlendur ferðamaður sem hafði gist á tjaldsvæðinu á Þingvöllum nóttina áður. Þetta kemur fram á vef lögreglunnar.
Leitað var á og við vatnið í gærkvöld fram til kl. 22 og var leit haldið áfram nú í morgun um kl 09. Björgunarsveitir og þyrla Landhelgisgæslunnar leituðu í gær og munu björgunarsveitir halda áfram leitinni í dag.
Lögreglan vinnur nú í því að fá upplýsingar frá aðstandendum ferðamannsins varðandi ferðaáætlanir og plön og nýtur við það aðstoð utanríkisþjónustu Utanríkisráðuneytisins.
Lögreglan mun setja inn upplýsingar um málið hér á síðuna varðandi framvindu málsins í dag.