Borgarstjóri og bæjarstjórar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu ásamt framkvæmdastjóra SSH undirrituðu formlega loftlagsstefnu höfuðborgarsvæðisins í dag. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vilja með stefnunni leggja sitt að mörkum með innleiðingu markvissra aðgerða sem stuðla að kolefnishlutleysi höfuðborgarsvæðisins.
Mikilvægasta afurð stefnunnar er því yfirlit aðgerða sem eru líklegar til að skila árangri í baráttunni við loftslagsbreytingar. Aðgerðirnar snúa m.a. að vegasamgöngum, siglingum, staðbundinni orkunotkun, iðnaði, efnanotkun, úrgangsmálum og landnotkun. Með stefnumótuninni lýsa sveitarfélögin yfir þeim vilja sínum að höfuðborgarsvæðið verði kolefnishlutlaust árið 2035, þ.e. að þá verði reiknuð heildarlosun gróðurhúsalofttegunda ekki meiri en sem nemur reiknaðri bindingu kolefnis.
Í tengslum við stefnuna hafa SSH undirritað samkomulag við umhverfis-, orku- og auðlindaráðuneytið í þeim tilgangi að fylgja loftslagsstefnunni eftir, m.a. með ráðningu ráðgjafa til þess að aðstoða sveitarfélögin við að móta aðgerðir til samræmis við verkfærakistu loftslagsstefnu höfuðborgarsvæðisins. Þá verður samkvæmt samkomlaginu unnið nýtt mat á losun gróðurhúsalofttegunda og bindingar kolefnis á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2023. Losun var síðast metin árið 2019 og er tilgangur nýrrar útektar sá að fylgjast með einstökum losunar- og bindingarþáttum og meta árangur aðgerða. Hafa SSH gert samning við VSÓ ráðgjöf til að sinna ofangreinum verkþáttum.
Samkvæmt Páli Björgvini Guðmundssyni framkvæmdastjóra SSH er það stór áfangi í samstarfi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu sem mynda eitt búsetu- og atvinnusvæði að sameiginleg stefna í loftslagsmálum liggi fyrir. Það sé sameiginleg ábyrgð sveitarfélaga á svæðinu að stuðla að því að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda en á sama tíma sé innleiðing stefnunnar á ábyrgð hvers sveitarfélags fyrir sig til samræmis við staðbundnar aðstæður. Jafnframt séu verkefni unnin á sameiginlegum vettvangi, s.s. þegar kemur að samgöngu- og úrgangsmálum.
Loftslagsstefna höfuðborgarsvæðisins er áhersluverkefni Sóknaráætlunar höfuðborgarsvæðisins 2020-2024 og eru verkefnin fjármögnuð með framlagi ríkisins, einstakra ráðuneyta og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.