Þak yfir höfuðið er grundvallarþörf hvers einstaklings, hverrar fjölskyldu. Húsnæðismál eru lífskjaramál af þeirri einföldu ástæðu að húsnæðiskostnaður er stærsti útgjaldaliður heimilanna. Hlutfall húsnæðiskostnaðar í útgjöldum hefur hækkað um helming frá síðustu aldamótum og íbúðaverð hefur hækkað um meira en helming að nafnverði á innan við þremur árum.
Tölurnar tala sínu máli og áskoranirnar blasa við í húsnæðismálum. Rót vandans er sú að á Íslandi eru of fáar íbúðir miðað við þarfir og fjölda landsmanna. Lausnin felst í því að byggja fleiri íbúðir til að koma jafnvægi á markaðinn. Ríkið er þar í forystuhlutverki en sveitarfélögin hafa mikið um það að segja hve margar íbúðir eru byggðar með áherslum sínum í skipulagsmálum og framboði byggingarhæfra lóða.
Framboðsvandinn á sér ýmsar birtingarmyndir. Í fyrsta lagi hefur íbúðaverð sjaldan mælst hærra eftir miklar hækkanir síðustu ára sem gerir fólki erfiðara um vik að komast inn á markaðinn. Í öðru lagi hafa þessar hækkanir leitt til verðbólgu og hærri vaxta sem hækka bæði greiðslubyrði húsnæðislána og draga úr uppbyggingu nýrra íbúða. Í þriðja lagi eru þau sem hafa lægstu tekjurnar líklegri til þess að vera á leigumarkaði, líklegri til þess að greiða allt of hátt hlutfall af ráðstöfunartekjum í húsnæðiskostnað. Þetta ástand er óviðunandi.
Markvissa eftirfylgni þarf með nýrri stefnu
Áform innviðaráðherra um húsnæðisstefnu stjórnvalda og aðgerðaáætlun er fagnaðarefni. Margt í stefnunni rímar vel við þær lausnir á íbúðaskorti sem Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins hafa lagt til undanfarin ár. Í stefnunni eru birtar tillögur að aðgerðum svo hægt sé að byggja meira, hraðar og hagkvæmar. Þar má nefna bættar upplýsingar um stöðu markaðarins, aukið framboð á byggingarhæfum lóðum og skilvirkari stjórnsýslu og eftirlit.
1. Byggingarátak
Það blasir við að byggingarátak er nauðsynlegt til að mæta uppsafnaðri þörf. Slíkt átak krefst samvinnu ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja í greininni. Eitt er víst, byggingariðnaðurinn mun ekki láta sitt eftir liggja. Forsenda uppbyggingar er framboð af byggingarhæfum lóðum sem hefur verið of lítið, áherslur sveitarfélaga í skipulagsmálum til hagkvæmrar uppbyggingar, skilvirk stjórnsýsla sveitarfélaga auk fjármögnunar á ásættanlegum kjörum.
2. Verðbólga
Allir sem geta þurfa að axla ábyrgð þegar kemur að verðbólgu. Aðilar vinnumarkaðarins þurfa að gera kjarasamninga sem rúmast innan efnahagslegs svigrúms, kjarasamninga sem fyrirtækin í landinu hafa efni á. Kostnaðarhækkanir sem ekki er innistæða fyrir skapa vandamál í stað þess að leysa þau. Við þurfum að tryggja að okkar eigin aðgerðir verði ekki að verðbólgufóðri. Það á jafnt við um einkageirann sem hið opinbera.
3. Húsnæðisstuðningur
Stuðningur yfirvalda við húsnæðismarkaðinn þarf að felast í því að liðkað sé fyrir auknu framboði hagkvæmra íbúða í takti við þarfir landsmanna. Hið opinbera – ríki og sveitarfélög – má ekki vera dragbítur á framboðshlið húsnæðismarkaðarins, heldur á það að styðja við skilvirkni markaðarins. Þá er húsnæðisstuðningur nauðsynlegur til þess að mæta stöðu tekjulágra en hann þarf að vera einfaldur, skilvirkur og afmarkaður við tekju- og eignaminnstu hópana í samfélaginu, líkt og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur bent á, til að hann þjóni markmiði sínu og hafi ekki eftirspurnarhvetjandi áhrif sem hækka húsnæðisverð enn frekar.
Húsnæðismarkaðurinn er eitt mikilvægasta púslið í stóru efnahagsmyndinni. Vandinn á húsnæðismarkaði verður ekki leystur með því að benda fingrum hvert á annað. Við leysum hann með því að byggja meira, hraðar og hagkvæmar, í takt við þarfir landsmanna. Við leysum hann með því að ná niður verðbólgu og þar með vaxtakostnaði. Við þurfum jafnframt að halda áfram að styðja við þá tekjulægstu og eignaminnstu í samfélaginu á hnitmiðaðan hátt, á sama tíma og við aukum framboð í takt við þarfir landsmanna. Þetta gerist ekki nema að ríki, sveitarfélög og fyrirtækin gangi í takt. Fyrirtækin eru sannarlega reiðubúin til uppbyggingar.