Íslenska lífeyriskerfið er annað árið í röð í fyrsta sæti í alþjóðlegri lífeyrisvísitölu Mercer- CFA Institute. Vísitalan er gefin út árlega og byggist á heildareinkunn út frá ýmsum þáttum lífeyriskerfisins. Ísland tók í fyrsta sinn þátt í mælingunni í fyrra, en í ár tóku 44 lönd í öllum heimsálfum þátt í samanburðinum. Holland og Danmörk komu fast á hæla Íslands.
Í vísitölunni er litið til þriggja grunnþátta – nægjanleika kerfis, sjálfbærni og trausts. Líkt og árið 2021 hlaut Ísland hæstu einkunn í tveimur þeirra, nægjanleika kerfis og sjálfbærni þess, en mældist sjöunda hæst þegar kemur að trausti til kerfisins.
Við mat á þáttunum fæst heildareinkunn um stöðu lífeyriskerfis hvers lands fyrir sig og löndunum skipað í A til E flokk eftir einkunnagjöf. Flokkur A er skilgreindur sem fyrsta flokks lífeyriskerfi með góðan lífeyri, sjálfbærni til langs tíma og sem nýtur trausts á meðan flokkur E er skilgreindur sem mjög ófullkomið lífeyriskerfi á fyrstu stigum þróunar eða ekkert lífeyriskerfi yfir höfuð. Líkt og í fyrra eru í ár sömu þrjú löndin í A flokki: Ísland, Holland og Danmörk. Ísland hlaut samanlagt 84,7 stig (e. overall index value), Holland 84,6 stig og Danmörk 82 stig. Heildareinkunn Íslands hækkar lítillega milli ára en hún var 84,1 stig árið 2021.
Mercer-CFA Institute er ráðgjafafyrirtæki sem stendur fyrir árlegri útgáfu á alþjóðlegri vísitölu fyrir lífeyriskerfi. Um er að ræða staðlaðan samanburð á lífeyriskerfum mismunandi landa þar sem gefin er heildareinkunn út frá fjölmörgum þáttum. Greining byggir bæði á alþjóðlegum gögnum sem og innlendum.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:
„Það er sannarlega ánægjulegt að fá þessa viðurkenningu annað árið í röð. Þetta er staðfesting á því að við höfum sýnt fyrirhyggju og ábyrgð í langan tíma til að tryggja afkomu fólks á efri árum. Allar þjóðir standa frammi fyrir áskorunum vegna hækkandi lífaldurs, en sterkt lífeyriskerfi er grundvöllur þess að við getum tekist á við þær breytingar.
Án þess þyrfti að velta gríðarlegum byrðum á komandi kynslóðir til að standa undir skuldbindingum um lífeyri. Það er viðvarandi verkefni að bæta kerfið og þar með kjör fólks áfram á komandi árum, en niðurstaðan sýnir ótvírætt að við erum á réttri leið.“