Ummæli Sindra Þórs, dæmd dauð og ómerk
Ingólfur Þórarinsson, betur þekktur sem Ingó veðurguð, vann meiðyrðamál á hendur Sindra Þór Sigríðarsyni Hilmarssyni í Landsrétti. Ummæli Sindra Þórs voru dæmd dauð og ómerk. Sindri Þór var jafnframt dæmdur til að greiða Ingólfi 900 þúsund krónur í miskabætur auk vaxta. Þá var hann dæmdur til að greiða Ingólfi málskostnað.
Ingólfur krafðist þess að fimm ummæli Sindra um sig yrðu dæmd dauð og ómerk. Þá krafðist hann þriggja milljóna króna í miskabætur. Ummælin beindust öll að meintum kynferðisbrotum Ingólfs en Sindri lét ummælin falla í kjölfar þess að aðgerðahópurinn Öfgar birti nafnlausar sögur meintra þolenda tónlistarmannsins.
,,Þótt Ingólfur væri þjóðþekktur einstaklingur þyrfti hann ekki að þola að vera sakaður opinberlega um alvarlegt refsivert brot án þess að tilefni væri til að setja fram slíkar staðhæfingar,“ segir í dómi Landsréttar.
Ummæli Sindra sem tekist var á um
„Maður sem er svo þekktur fyrir að ríða börnum…“
„Hvað finnst þér réttlætanlegt að fullorðinn maður nýti frægð sína og valdastöðu til að ríða mörgum börnum…“
„Skemmtikraftur sem hefur stundað það síðastliðin 12-13 ár að ríða börnum…“
„Trallað í skítbeisikk kassagítarútgáfu af manni sem ríður börnum…“
„Til að vinna örugglega unlikable keppnina þá splæsir eigandinn í barnaríðinginn.“