Segir hagnað af meintum brotum Samherja gerðan upptækan – Jóhannes var með allt að 13 lífverði
Einar Þorsteinsson spurði Jóhannes Stefánsson að því í Kastljósþættinum, hvort hann teldi að Samherjamálið muni enda með dómsmáli á Íslandi?
,,Ég hef trú á því, ég get bara sagt þér það að rannsakendur í Namibíu eru ekkert að fara að hætta rannsókn á málunum og þeir vilja líka fá alla þá peninga sem hafa verið teknir út úr landinu ólöglega, til baka, og það sem hefur þénast á ólöglegu kvótunum. Það er líka bara þeirra réttur og þetta eru stórar upphæðir.“ Sagði Jóhannes Stefánsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu.
Jóhannes benti einnig á að verið sé að rannsaka málin í mörgum löndum og að það muni hjálpa við að ná árangri á Íslandi. Þá hefur saksóknari í Namibíu einnig sagt hið sama, þ.e. að hagnaður af meintum brotum Samherja verði gerður upptækur og hann innheimtur til greiðslu til Namibíu.
Meintar morðtilraunir
Namibíska lögreglan hefur sett fullan kraft í að rannsakar ítrekaðar tilraunir til að ráða Jóhannes Stefánsson uppljóstrara í Samherjamálinu af dögum. Þetta kom m.a. fram í viðtali við hann í Kastljósinu í kvöld.
Jóhannes vísar öllum ásökunum og ávirðingum Samherja á bug og segir að verið sé að reyna að afvegaleiða umræðuna og villa um fyrir fólki. T.d. hafi mútur haldið áfram af miklu meiri krafti eftir að hann hætti og að hann sé kannski ábyrgur fyrir um 20% af heildinni. Ekkert standist skoðun sem Samherji haldi fram en þeir megi sín vegna reyna að villa um fyrir fólki en sögur þeirra haldi engu vatni.
Jóhannes lét af störfum hjá Samherja í júlí árið 2016 og yfirgaf fyrirtækið með tölvu fyrirtækisins sem var með miklu magni gagna um starfsemi Samherja. Strax þá hafi undarlegir hlutir farið að gerast og ýmsir sýnt tölvunni áhuga og allt í einu var fólk farið að reyna að kynnast honum sem hann vissi engin deili á.
Var með allt að 13 lífverði -,,þegar aðilar voru sendir til að taka mig út af“
Jóhannes segist hafa verið heppinn að gott fólk í kringum hann hafi gripið inn í og ráðlagt honum að ráða sér lífverði vegna þess að öryggi hans hafi verið ógnað. Oftar en einu sinni hafi verið eitrað fyrir honum í gegnum drykkjarföng og mat og lögreglan í Namibíu telji sig vita hver beri ábyrgð og hvernig staðið hafi verið að verki. Um sé að ræða nokkur skipti og hann hafi orðið talsvert veikur og verið undir umsjá lækna síðastliðin ár vegna þessa.
Sjö manns þegar handteknir og rannsókn í fullum gangi
Hann segist vera ánægður með hvað vel og hratt gangi að rannsaka málið í Namibíu og bendir á að nú þegar séu ráðherrar búnir að segja af sér og sex menn hafi verið handteknir í Namibíu, þar af tveir ráðherrar. Þá sé búið að handtaka og frysta allar eignir fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Angóla vegna Samherjmálsins.
Sakamálarannsóknir í nokkrum löndum
Sakamálarannsóknir séu í gangi í Noregi og á Íslandi og víðar. Hann hefur mætt í skýrslutökur í mörgum löndum og vinni með rannsakendum sem munu eiga síðasta orðið í þessu stóra og mjög svo flókna máli. Þorsteinn Már kaus að mæta ekki í Kastljós þrátt fyrir að hafa verið boðið að sögn Einars Þorsteinssonar stjórnanda þáttarins.
Viðtalið við Jóhannes í heild sinni í Kastljósi
Hagnaður af meintum brotum Samherja gerður upptækur?
https://gamli.frettatiminn.is/2019/12/04/hagnadur-af-meintum-brotum-samherja-gerdur-upptaekur/