Alls bárust 10.000 bóluefnaskammtar frá Pfizer í desember. Frá janúar til lok marsmánaðar munu berast a.m.k. 33.000 skammtar til viðbótar. Líklegt er þó að fleiri skammtar muni berast á þessu tímabili vegna þeirra viðbótarsamninga sem Evrópusambandið hefur gert en áætlun um það mun liggja fyrir um miðjan janúar. Heildarsamningar við Pfizer kveða á um 250.000 skammta til Íslands sem duga fyrir 125.000 einstaklinga.
Moderna fékk markaðsleyfi 6. janúar sl. og nú liggur fyrir að afhentir verða samtals 5.000 skammtar í janúar – febrúar. Moderna er að auka framleiðslugetu sína og munu því berast fleiri skammtar til Íslands eftir febrúarmánuð, en heildarsamningurinn kveður á um 128.000 skammta til Íslands sem duga fyrir 64.000 einstaklinga.