,,Það er morgunljóst að Efling, VR, Verkalýðsfélag Akraness og Grindavíkur munu ekki sýna þessum kjaraviðræðum meira langlundargeð en orðið er“
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, hafði þetta um könnunina að segja:
,,Þessi niðurstaða kemur mér ekki á óvart að 80% félagsmanna Eflingar séu tilbúin í verkfallsátök, ef ekki tekst að hækka ráðstöfunartekjur þeirra þannig að Þau þurfi ekki að hafa fjárhagsáhyggjur.
En eins og fram kemur í þessari frétt þá hafa um 63% félagsmanna Eflingar fjárhagsáhyggjur sem segir okkur að við verðum að lagfæra ráðstöfunartekjur verkafólks umtalsvert í þessum samningum.
Það er morgunljóst að Efling, VR, Verkalýðsfélag Akraness og Grindavíkur munu ekki sýna þessum kjaraviðræðum meira langlundargeð en orðið er og ég tel að ef ekkert gerist í viðræðum við Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld í næstu viku munu þessi félög slíta viðræðum og hefja undirbúning að verkafallsaðgerðum.
Ég held að ég tali fyrir hönd allra formanna áðurnefndra stéttarfélaga þegar ég segi að þolinmæði okkar og langlundargeð í þessum viðræðum eru að þrotum komnar. Það sama gildir hjá okkar félagsmönnum eins og sést á þessari könnun Eflingar.
Ekki voru fréttirnar í gær sem lutu að því að bankastjóri Landsbankans hafi hækkað um 1,7 milljón á mánuði eða um 82% til að draga úr gremju verkafólks. Alþýða þessa lands ætlar ekki að sætta sig við að búa við okurvexti, verðtryggingu og himinn há þjónustugjöld á sama tíma og til stendur að reisa snobbbyggingu fyrir Landsbankann sem á að kosta uppundir 9 milljarða og einnig á sama tíma og græðgisvæðing er að skjóta föstum rótum hjá bankastjórnendum að nýjan leik.
Ein af okkar kröfum er að Landsbankanum verði breytt í óhagnaðardrifinn samfélagsbanka þar sem hagsmunir alþýðunnar og heimilanna verði teknir framyfir hagsmuni fjármálakerfisins.
Ég held að æði margt jákvætt þurfi að gerast á næstu dögum ef forða eigi verkfallsátökum hjá verkafólki og því mikilvægt að verkafólk standi þétt við bakið á stéttarfélögunum ef til átaka kemur.
Rétt er að geta þess að verkafallssjóðir stéttarfélaganna eru sterkir sem er afar mikilvægt ef til átaka kemur. Ábyrgð Samtaka atvinnulífsins, stjórnvalda og okkar í verkalýðshreyfingunni er mjög mikil þegar kemur að því að forða vinnumarkaðnum frá verkfallsátökum.
Hins vegar verða stjórnvöld og fulltrúar SA að skilja að það er lýðheilsumál að lágtekjufólk geti framfleytt sér frá mánuði til mánaðar og þurfi ekki að hafa fjárhagsáhyggjur í hverjum mánuði, enda ólíðandi að 63% verkafólks skuli búa við þau skilyrði að þurfa að hafa slíkar fjárhagsáhyggjur í hverjum mánuði.“ Segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.