Áhugi á notuðum rafbílum fer vaxandi en þeim fækkar sem sækjast eftir notuðum bensínbílum. Þetta kemur fram í Bílakaupakönnun MMR 2018-19 sem nú er fáanleg á skýrsluformi.
Eftirspurn eftir notuðum rafbílum hefur aukist árlega frá árinu 2015 en af þeim svarendum könnunarinnar sem kváðust hyggja á kaup á notuðum (en ekki nýjum) bíl á næstu þremur árum kváðust 26% líkleg til að kaupa rafdrifinn bíl. Áhugi fyrir notuðum bensínbílum minnkar um 13% á milli ára en 29% svarenda í nýafstaðinni könnun kváðust líkleg til að kaupa bensínbíl, samanborið við 42% í könnun síðasta árs. Flestir kváðust þó líklegast að þeir myndu kaupa sér notaðan díselbíl á næstu þremur árum eða 44%. Þá kváðust 2% líklegust til að kaupa notaðan metanbíl.
Munur eftir lýðfræðihópum
Á meðal þeirra sem hyggja á kaup á notuðum bíl á næstu þremur árum reyndust konur (35%) líklegri en karlar (19%) til að telja rafbíla verða fyrir valinu. Karlar (52%) reyndust hins vegar öllu líklegri til að hyggja á kaup á díselbíl heldur en konur (32%).
Áhugi á díselbílum fór minnkandi með auknum tekjum en um helmingur svarenda með 600 þúsund eða minna í heimilistekjur á mánuði kvaðst líklegur til að kaupa díselbíl, samanborið við 44% þeirra með 600-999 þúsund í heimilstekjur og 35% þeirra með yfir eina milljón. Þá voru svarendur með 600-999 þúsund í heimilistekjur líklegri en svarendur annarra hópa til að segja rafbíla líklega verða fyrir valinu við kaup á notuðum bílum (36%) en þeir með eina milljón eða meira voru líklegastir til að hallast að bensínbílum (36%).
Þá kváðust tæplega tveir af hverjum þremur svarendum sem búsettir voru á landsbyggðinni (60%) líklegir til að festa kaup á díselbíl, samanborið við um þriðjung þeirra af höfuðborgarsvæðinu (32%). Íbúar höfuðborgarsvæðisins sem hyggja á kaup á notuðum bílum kváðust hins vegar líklegri til að kaupa bíla sem nýta bensín (34%) eða rafmagn (31%) sem orkugjafa heldur en þau af landsbyggðinni (21% bensín, 19% rafmagn).
Um Bílakaupakönnun MMR:
Markmið Bílakaupakönnunar MMR er að meta markaðslega stöðu íslenskra bílaumboða og vörumerkja þeirra með því að kanna vörumerkjavitund, ímynd umboða, kaupáform neytenda og helstu samkeppnisaðila með rýni í valsett neytenda. Könnuninn í heild telur 25 mæld atriði og er endurtekin árlega. Skýrsla með niðurstöðum könnunarinnar í heild er fáanleg hjá MMR
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 2061 einstaklingur
Dagsetning framkvæmdar: 4. til 14. janúar 2019