Áskorun til Alþingis vegna hugmynda um sölu bankanna
Hagsmunasamtök heimilanna ítreka að það má alls ekki selja bankana án þess að fyrst fari fram úttekt og rannsókn á eignum þeirra, þ.e. hve hátt hlutfall þeirra hefur verið fengið með löglegum hætti, því það eitt er þeirra raunverulega eign.
Ábyrg stjórnvöld geta ekki leyft sér að líta fram hjá því að verulegur vafi leikur á að staðið hafi verið löglega að öllum málum eftir hrun og að líkur eru á því að stóran hluta hagnaðar bankanna frá hruni megi rekja til þess að lög- og stjórnarskrárvarin réttindi hafi verið brotin á þúsundum einstaklinga. Eignir sem fengist hafa með ólöglegum hætti eða með því að beita krafti aflsmunar til að ná fram niðurstöðum sem ekki standast skoðun, eru eðli málsins samkvæmt ekkert annað en þýfi sem ber að skila til þeirra sem því var stolið af.
Það getur því ekki komið til greina að selja neina banka fyrr en gerð hefur verið Rannsóknarskýrsla heimilanna um aðgerðir stjórnvalda og banka í kjölfar hrunsins, afleiðingar þeirra fyrir heimilin í landinu og hagnað bankanna sem rekja má til þeirra.
Að selja bankana áður en slík rannsókn færi fram væri ekki aðeins brot gagnvart þeim sem fyrir brotum hafa orðið, heldur einnig gagnvart fjárfestum sem gætu þá hreinlega farið í skaðabótamál við ríkið fyrir að hafa leynt þá mikilvægum upplýsingum um galla á eigninni.
Á sama hátt og Alþingi tók af skarið og lét gera Rannsóknarskýrslu um aðdraganda og orsakir bankahrunsins, skora Hagsmunasamtök heimilanna á Alþingi að sjá til þess að gerð verði Rannsóknarskýrsla heimilanna um aðgerðir stjórnvalda eftir hrun og afleiðingar þeirra fyrir heimilin og hagkerfið. Það verður að gerast áður en bankarnir verða seldir.
Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur misst heimili sín frá hruni. Það er staðreynd sem verður að skoða því hún sýnir svo ekki verður um villst að eitthvað hafi misfarist með skelfilegum afleiðingum.
Það er hrein og klár lítilsvirðing og allt að því mannvonska, gagnvart þeim þúsundum einstaklinga sem í þessum hremmingum lentu, að hunsa ákall þeirra um áheyrn, hjálp og rannsókn og erfitt að trúa því að óreyndu að nokkur þingmaður vilji standa í vegi fyrir réttlæti með þeim hætti.
Hagsmunasamtök heimilanna beina því til Alþingismanna að hefja sig yfir pólitík og flokka í þessu mikilvæga máli, því það getur enginn, hvorki flokkur né tiltekinn stjórnmálamaður, verið þess virði að láta skelfingar 15.000 heimila afskiptalausar.
Það eru 11 ár frá hruni. 15.000 heimili hafa tekið á sig skömm sem ekki var þeirra. Það er kominn tími til að skila henni þangað sem hún á heima og veita þeim uppreist æru.
Við krefjumst Rannsóknarskýrslu heimilanna – fyrir heimilin og hagkerfið!
Hagsmunasamtök heimilanna