Afkoma Arion banka á fjórða ársfjórðungi 2019 og á árinu 2019 – Hagnaður af áframhaldandi starfsemi hækkar umtalsvert frá fyrra ári
Afkoma samstæðu Arion banka á fjórða ársfjórðungi 2019 var neikvæð um sem nemur 2.775 milljónum króna en niðurfærsla eigna og erfiðleikar í rekstri dótturfélaga í söluferli hafa neikvæð áhrif á afkomu bæði fjórða ársfjórðungs og ársins 2019. Á sama tímabili 2018 var afkoman jákvæð sem nam 1.616 milljónum króna. Arðsemi eigin fjár var neikvæð um 5,8% á fjórða ársfjórðungi 2019, samanborið 3,2% jákvæða arðsemi eigin fjár á sama tímabili 2018. Hagnaður ársins 2019 var 1.100 milljónir króna, samanborið við 7.777 milljónir króna 2018. Arðsemi eigin fjár var 0,6% á árinu 2019, samanborið við 3,7% á árinu 2018.
Hagnaður af áframhaldandi starfsemi nam 5.209 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi og 14.055 milljónum króna á árinu 2019, samanborið við 2.132 milljónir króna á fjórða ársfjórðungi 2018 og 8.938 milljónir króna á árinu 2018. Sala á hluta íbúðalánasafns bankans á fjórða ársfjórðungi hefur jákvæð áhrif á afkomu fjórða ársfjórðungs 2019, sem nemur um 1,1 milljarði króna. Arðsemi eigin fjár af áframhaldandi starfsemi reiknast 10,8% á fjórða ársfjórðungi og 7,2% á árinu 2019, samanborið við 4,3% fyrir bæði fjórða ársfjórðung 2018 og árið 2018.
Heildareignir námu 1.082 milljörðum króna í árslok 2019, samanborið við 1.164 milljarða króna í árslok 2018 sem er í samræmi við markmið bankans um aukningu tekna á áhættuvegnar eignir fremur en útlánavöxt. Lán til viðskiptavina lækkuðu um 59,9 milljarða króna á árinu eða um 7% og er lækkunin að stórum hluta tilkomin vegna sölu á áðurnefndu íbúðalánasafni að fjárhæð 48 milljarðar króna í október. Þrátt fyrir þessa lækkun studdi bankinn við viðskiptavini sína, bæði einstaklinga og fyrirtæki, með nýjum útlánum að fjárhæð ISK 24 milljarðar króna á fjórða fjórðungi. Lántaka lækkar um 113,0 milljarða króna á árinu 2019 eða 27% aðallega vegna fyrirframgreiðslu sértryggðra skuldabréfa og endurkaupa á erlendri skuldabréfaútgáfu. Eigið fé nam 190 milljörðum króna, samanborið við 201 milljarð króna í árslok 2018.
Til að bankinn hafi hæfilegt magn eigin fjár er mikilvægt að minnka umfram eigið fé. Til samræmis við markmið bankans um að almennt eigið fé þáttar 1 (CET 1) sé í kringum 17%, greiddi bankinn arð og keypti eigin bréf fyrir samtals 12,4 milljarða króna á árinu 2019. Stjórn leggur til 10,0 milljarða króna arðgreiðslu á árinu 2020 eða sem nemur 5,5 krónum á hlut.
Eiginfjárhlutfall bankans var 24,0% í árslok 2019 en var 22,0% í árslok 2018. Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 nam 21,2% í árslok 2019 og er eins og það var í árslok 2018. Í útreikningum eiginfjárhlutfalla er tekið tillit til tillögu um 10 milljarða króna arðgreiðslu á árinu 2020 og áframhaldandi kaupum á eigin bréfum bankans, sem gert er ráð fyrir að nemi um 4,2 milljörðum króna fram að aðalfundi í mars.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka
„Við sjáum þess merki á fjórða ársfjórðungi að þær skipulags- og áherslubreytingar sem ráðist var í undir lok þriðja ársfjórðungs skila árangri því Arion banki hagnast um 5,2 milljarða króna af áframhaldandi starfsemi á fjórðungnum, sem er besti fjórðungur ársins 2019. Vaxtamunur hefur hækkað og dregið hefur úr rekstrarkostnaði á sama tíma og bankinn hefur fengið endurgreidd óarðbær útlán og greitt upp dýra fjármögnun. Góður vöxtur er einnig í afkomu tryggingastarfsemi og höfum við miklar væntingar til áframhaldandi samstarfs við Vörð, viðskiptavinum okkar til hagsbóta. Það er því margt í rekstri bankans sem lofar góðu varðandi framhaldið.
Félög sem bankinn er með í sölumeðferð reyndust hins vegar þung í skauti á árinu. Að teknu tilliti til neikvæðra áhrifa þeirra er hagnaður bankans á árinu 2019 aðeins 1,1 milljarður króna og tap er á fjórða ársfjórðungi. Valitor er eitt þessara félaga en undir árslok ákvað stjórn þess að ráðast í umfangsmiklar skipulagsbreytingar með það að markmiði að styrkja kjarnarekstur félagsins og draga úr fjárfestingarþörf. Áætlanir Valitor fyrir árið 2020 gera ráð fyrir að félagið skili jákvæðri afkomu fyrir afskriftir og fjármagnsliði.
Eiginfjárstaða bankans er áfram mjög sterk og eitt af áhersluatriðum okkar nú er að ná fram hagstæðri fjármagnsskipan með útgáfu skuldabréfa sem flokkast sem eiginfjárþáttur 2 og viðbótar eigið fé þáttar 1, bæta notkun eigin fjár í rekstrinum og leggja aukna áherslu á starfsemi sem bindur minna eigið fé. Eigið fé er í raun skuld bankans við eigendur og er dýrasta fjármögnun bankans. Því skiptir miklu að hafa ekki meira eigin fé en þörf krefur. Endurkaupaáætlun var hrint í framkvæmd síðla árs 2019 og arður greiddur út á árinu. Jafnframt stendur til að leggja fyrir aðalfund bankans í mars n.k. tillögu um frekari útgreiðslu arðs. Lækkun eiginfjár er mikilvægur liður í að bankinn nái markmiðum sínum um 10% arðsemi eiginfjár enda eru vaxtartækifæri sem bjóða ásættanlega arðsemi takmörkuð í lækkandi vaxtaumhverfi.
Annar mikilvægur þáttur í að ná viðundandi arðsemi snýr að lánveitingum til stærri fyrirtækja. Sökum hárra eiginfjárkrafna og skatta er bankinn í raun ekki samkeppnisfær við lífeyrissjóði og erlenda banka þegar kemur að lánum til stærri fyrirtækja. Arion banki mun því gagnvart þessum fyrirtækjum leggja höfuðáherslu á að veita faglega ráðgjöf og aðstoða þau við að finna hagstæðustu fjármögnun hverju sinni, en auðvitað leggja þeim til lánsfé þegar svo ber undir. Hvað varðar lánveitingar til einstaklinga og lítilla og meðal stórra fyrirtækja er stefna bankans óbreytt og þrátt fyrir áherslu á arðsemi lánasafnsins umfram vöxt þá var á fjórða ársfjórðungi góður gangur í nýjum útlánum sem námu alls 24 milljörðum króna á fjórðungnum, þar af voru lán til einstaklinga um 10 milljarðar króna.
Stjórn Arion banka samþykkti nú í desember metnaðarfulla umhverfis- og loftlagsstefnu og markmið fyrir næstu ár. Í stefnunni felst að við sem störfum hjá bankanum viljum leggja okkar af mörkum til að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu og öðrum innlendum og erlendum loftlagssáttmálum. Markmið okkar á árinu 2020 er að meta lánasafn bankans út frá grænum viðmiðum og setja okkur markmið í þeim efnum. Munum við einnig í auknum mæli beina sjónum okkar að fjármögnun verkefna sem snúa að sjálfbærri þróun og grænni innviðauppbyggingu. Að auki munum við í mati okkar á birgjum gera kröfu um að þeir taki mið af áhrifum sinnar starfsemi á umhverfis- og loftlagsmál.“