„Að mínu mati er talsverð ástæða til að hafa áhyggjur af því að hreyfing í átt til verndarstefnu sé að skjóta rótum hér á landi við aðstæðurnar sem eru núna,“ sagði Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, á opnum streymisfundi FA, „Samkeppnin eftir heimsfaraldur“ fyrr í dag.
Hann nefndi því til stuðnings þær breytingar sem voru gerðar á úthlutun tollkvóta fyrir landbúnaðarvörur um síðastliðin áramót, en Samkeppniseftirlitið lagðist eindregið gegn þeim og benti á ýmsar aðrar leiðir til að styðja íslenskan landbúnað í erfiðleikum vegna kórónuveirufaraldursins. Páll Gunnar tiltók einnig ákall, sem m.a. hefur komið fram í tillöguflutningi á Alþingi, um að víkja til hliðar ákvæðum samkeppnislaga til bjargar kjötafurðastöðvum.
„Við sjáum stóru hagsmunasamtök atvinnufyrirtækjanna og talsmenn stærri fyrirtækja tala fyrir leiðum af þessu tagi eða eftir atvikum tala gegn aukinni samkeppni. Ég nefni að um síðustu áramót var til dæmis haft eftir í viðtali við forstjóra Icelandair að hann teldi að það væri ekki pláss fyrir fleiri en eitt flugfélag sem flygi frá Íslandi, þ.e. byggði starfsemi sína upp á Keflavíkurflugvelli sem miðstöð. Icelandair byggi sem sagt við nóg samkeppnisaðhald utan frá. Í mínum huga er umræða af þessu tagi að skjóta sterkari rótum núna heldur en í bankahruninu sjálfu,“ sagði Páll Gunnar. „Mögulega er ástæðan sú að stjórnvöld hafa þurft að grípa til ýmissa stuðningsaðgerða gagnvart greinum sem hafa orðið illa úti vegna COVID-19. Hugsanlega upplifir fólk og fyrirtæki það þannig að verndaraðgerðir af þessu tagi, sem ég lýsti hérna áðan, séu þá svona rökrétt næsta skref í framhaldi af þeim aðgerðum sem hefur verið gripið til. Sú ályktun er hins vegar algjörlega röng að mínu mati og ég heyri að fleiri deila þeim skoðunum hérna á þessum fundi. Það getur haft langvarandi skaðleg áhrif á atvinnulíf, neytendur og efnahag þjóðarinnar til frambúðar.“
Réttu viðbrögðin sókn en ekki vörn
Páll Gunnar sagði að réttu viðbrögðin við yfirstandandi erfiðleikum væru að sækja í stað þess að verjast. Vissulega þyrftu ýmsar atvinnugreinar stuðning, ekki síst ferðaþjónustan og tengdar greinar. Nauðsynlegt væri að stjórnvöld hlypu undir bagga. Nú væri Samkeppniseftirlitið að rannsaka samruna kjötafurðastöðva. „Það er auðvitað þannig að ýmislegt gefur mjög sterkt til kynna að íslenskur landbúnaður þarfnist stuðnings á ýmsum sviðum. Um það er ekki deilt. Stuðningurinn þarf hins vegar að vera liður í sóknaráætlun, þar sem atvinnugreinum er gert kleift að sækja fram í umhverfi þar sem er dregið úr samkeppnishindrunum og samkeppni innanlands og erlendis frá örvar fyrirtæki til dáða, knýr þau til bætts rekstrar og nýjunga og styður þannig við samkeppnishæfni landsins til frambúðar,“ sagði hann. Við ættum að hætta að tala um að það yrði að verja íslenskan landbúnað og tala frekar um að sækja fram á grundvelli landbúnaðarins.
Atvinnulífið þarf að horfa á heildarhagsmuni
Forstjóri Samkeppniseftirlitsins sagði að atvinnulífið sjálft þyrfti að láta til sín taka og vera reiðubúið að horfa á heildarhagsmuni atvinnulífsins en ekki bara afmarkaða og skammtímahagsmuni einstakra fyrirtækja eða atvinnugreina. „Að mínu mati gegnir Félag atvinnurekenda algeru lykilhlutverki í þessu efni. Þið hafið sýnt í verki að þið eruð reiðubúin að tala fyrir hinum breiðu heildarhagsmunum af að virkja samkeppni og tala fyrir aðgerðum sem opna markaði og skapa grósku sem fylgir virkri samkeppni. Það er auðvitað vegna þess að mörg ykkar hafið sjálf fundið á eigin skinni hvernig hindranir af hálfu stjórnvalda eða stærri fyrirtækja sem þið keppið við geta dregið úr ykkur kraft og gert rekstur fyrirtækjanna ykkar óbærilegan. Það er að mínu mati mjög mikilvægt að stjórnvöld leggi rækt við að hlusta á þá reynslu sem þið hafið og læra af henni. Og ég sé satt að segja ekki önnur breið hagsmunasamtök í atvinnulífinu taka að sér þetta hlutverk eins og sakir standa.“
Upptaka af fundinum á Facebook-síðu FA