Áform um friðlýsingu í Fjaðrárgljúfri í Skaftárhreppi
Umhverfisstofnun kynnir í Lögbirtingablaðinu í dag, í samræmi við 2. mgr. 38. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og að höfðu samráði við fulltrúa Skaftárhrepps og landeigendur, áform um friðlýsingu þess hluta Fjaðrárgljúfurs sem er í landi jarðarinnar Heiði í Skaftárhreppi.
Áformin miða að friðlýsingu áðurnefnds svæðis sem náttúruvætti í samræmi við 48. gr. laga um náttúruvernd. Afmörkun svæðis er aðgengileg á korti sem aðgengilegt er á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Markmið friðlýsingarinnar er að stuðla að vernd jarðfræðilegrar fjölbreytni í samræmi við 3. gr. laga um náttúruvernd. Sérstaklega er litið til b- og c-liðar 3. gr. laga sem kveða á um að:
b. Að vernda jarðmyndanir sem eru sérstakar eða einstakar á lands- eða heimsvísu.
c. Að vernda vatnsfarvegi, fossa og stöðuvötn svo sem kostur er.
Frestur til að skila athugasemdum við áform um friðlýsingu er til og með 11. mars 2024.
Hægt er að skila inn ábendingum og athugasemdum á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með því að senda tölvupóst á ust@ust.is eða senda póst til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík. Frekari upplýsingar og afmörkun svæðis er að finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar.
21.06.2022 – Fjarðargljúfur í einkaeigu
Íslenska ríkið hefur á síðustu tíu árum lagt hátt í fimmtíu milljónir í uppbyggingu á svæðinu. Styrkir hafa meðal annars verið nýttir í gerð salernisaðstöðu, göngustíga og útsýnispalla við gljúfrið. Fram að þessu hefur verið frír aðgangur að gljúfrinu. Ekki hefur fengist uppgefið hvaða ferðaþjónustufyrirtæki hyggst kaupa landið, né hvort væntanlegur eigandi áformi gjaldtöku.
Í tilkynningu frá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti segir að Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og kaupandi jarðarinnar Heiði í Skaftárhreppi hafa undirritað með sér samkomulag. Í því samkomulagi sé kveðið á um að ráðuneytið falli frá forkaupsrétti jarðarinnar en kaupandinn lýsi sig samþykkan því að vinna að friðlýsingu svæðisins.