Félagsmenn VR í hópbifreiðafyrirtækjum á félagssvæði VR og í gistiþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði leggja niður störf þann 22. mars
Rafrænni atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna VR um verkfallsboðun, í hópbifreiðafyrirtækjum á félagssvæði VR og í gistiþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði, lauk á hádegi í dag.
Á kjörskrá voru 959 félagsmenn VR og alls greiddu 578 þeirra atkvæði.
52,25% (302 atkvæði) samþykktu verkfallsaðgerðir en 45,33% (262 atkvæði) voru á móti. 2,42% (14 atkvæði) tóku ekki afstöðu.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir niðurstöðuna ekki koma sér á óvart. Réttlætistilfinningu félagsmanna er misboðið en verkfallsátök séu grafalvarlegur hlutur. Þetta er ákall um að nú verði að setja fullan kraft í að klára samningaviðræður, annað væri ábyrgðarleysi.
Að öllu óbreyttu munu félagsmenn VR í hópbifreiðafyrirtækjum á félagssvæði VR og í gistiþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði leggja niður störf þann 22. mars nk.