Matthías Johannessen, skáld og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, lést í gær á líknardeild Landspítalans í Kópavogi, 94 ára gamall. Matthías ritstýrði blaðinu í rúmt 41 ár, frá 1959 til ársloka 2000, lengur en nokkur annar.
Morgunblaðið minnist Mastthíasar á vefnum mbl.is og þar segir: Matthías fæddist í Reykjavík hinn 3. janúar 1930, sonur hjónanna Haraldar Johannessen aðalféhirðis Landsbankans og Önnu Jóhannesdóttur Johannessen, húsmóður. Matthías átti tvö systkini, Jósefínu „Jossu“ Norland húsfreyju (d. 2023) og Jóhannes Johannessen, fv. lögfræðing Landsbankans.
Matthías gekk að eiga Hönnu Ingólfsdóttur 1953, en þau eignuðust tvo syni: Harald lögfræðing og fv. ríkislögreglustjóra, og dr. Ingólf, sérfræðilækni í veirufræði og forstöðulækni klínískrar rannsóknarþjónustu við heilsugæsluumdæmi Edinborgar í Skotlandi. Hanna lést árið 2009.
Ritstjóri aðeins 29 ára gamall
Matthías lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1950 og kandítatsprófi frá Háskóla Íslands í íslenskum fræðum með bókmenntir sem aðalgrein. Hann hóf fyrst störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu samhliða námi árið 1951, þá 21 árs.
Hann lagði stund á almenna bókmenntasögu og leiklistarfræði í Kaupmannahöfn þegar hann var ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins 1959, aðeins 29 ára gamall, við hlið Valtýs Stefánssonar, dr. Bjarna Benediktssonar og Sigurðar Bjarnasonar frá Vigur. Hann starfaði einnig með Eyjólfi Konráð Jónssyni og loks Styrmi Gunnarssyni.
Stórefldi Morgunblaðið á löngum ferli
Morgunblaðið efldist mikið á þessum tíma, bæði að vöxtum og útbreiðslu. Það fékk yfirbragð heimsblaðs, sem lagði mikið upp úr erlendum fréttum án þess að vanrækja hinar innlendu, snarpur vettvangur þjóðmálaumræðu, og sinnti vel menningu og listum.
Matthías var ekki maður einhamur, en í honum bjuggu ritstjórinn og skáldið í sátt og samlyndi. Hann nýtti sér skáldgáfuna á síðum blaðsins, þar sem viðtöl hans við merkisfólk af öllum stigum nutu verðskuldaðra vinsælda. Hann leit á Morgunblaðið sem menningarstofnun ekki síður en útbreiddasta og greinarbesta fréttamiðil þjóðarinnar: blað allra landsmanna.
Afkastamikið og virt skáld
Morgunblaðið dugði Matthíasi þó ekki, því hann átti samhliða langan og frjósaman ritferil utan blaðsins. Eftir hann liggja margir tugir bóka, ótal ljóðabækur, leikrit, ritgerðir, viðtalsbækur og ævisögur.
Ljóð hans hafa verið þýdd á ótal tungumál og hann hlaut margvíslegar viðurkenningar. Þrjár bóka hans voru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, Alþingi sæmdi hann heiðurslaunum 1984, hann hlaut Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar árið 1999 og Háskóli Íslands sæmdi hann heiðursdoktorsnafnbót árið 2010. Þá fékk hann Íslensku bókmenntaverðlaunin 2005 fyrir bókina Kjarval, enda engan veginn sestur í helgan stein þegar hann lét af störfum á Morgunblaðinu á aldamótunum. Hann hélt áfram að skrifa, bæði ljóð, um líf og um list, auk þess sem hann hafði margt til þjóðmálaumræðu að leggja. Hinsta ljóðabók hans, Undir mjúkum væng, kom út 2023.
Virkur í félagsmálastarfi
Þess utan var hann virkur á ótal vettvangi öðrum, sat m.a. í stjórn Hins íslenska þjóðvinafélags, í menntamálaráði, í bókmenntaráði Almenna bókafélagsins, gegndi trúnaðarstörfum innan Sjálfstæðisflokksins, sat í stjórn Krabbameinsfélagsins og Hjartaverndar. Hann var formaður Stúdentaráðs HÍ, Blaðamannafélags Íslands (þar sem hann var þar til í gær félagi nr. 1), Félags íslenskra rithöfunda, Rithöfundasambands Íslands, Rithöfundaráðs, Norræna rithöfundaráðsins, Þjóðhátíðarnefndar 1974, Yrkju, Menntamálaráðs og var formaður Þjóðleikhúsráðs.