FÍB undrast hvernig Þórður Guðjónsson, forstjóri Skeljungs, reynir að afvegleiða umræðu um óeðlilega hátt bensínverð hér á landi með þeim ummælum að hér á landi séu ekki reknar olíuhreinsistöðvar. Því sé ekki rétt að miða útsöluverð á eldsneyti við verðsveiflur á heimsmarkaðsverði hráolíu. Þessu hélt Þórður fram í viðtali við RÚV þann 10. apríl.
Þessi ummæli eru með ólíkindum. Forstjóri Skeljungs veit – eða ætti að vita í ljósi þess hvar hann starfar – að sala eldsneytis miðast á hverjum tíma við heimsmarkaðsverð á unninni olíu (bensín, dísilolía) sem sveiflast í samræmi við heimsmarkaðsverð á hráolíu. Staðsetning olíuhreinsistöðva skiptir þar engu máli.
Þá er í meira lagi sérkennilegt að forstjóri Skeljungs kýs að svara fyrir öll olíufélög hér á landi. Í viðtalinu hafnar hann því að „félögin haldi verði óeðlilega háu.“
Íslensku olíufélögin kaupa öll eldsneyti frá sama framleiðanda, norska ríkisolíufélaginu Equinor (áður Statoil). Flestir smásöluaðilar á eldsneyti á Norðurlöndunum vinna með sama hætti og íslensku olíufélögin, kaupa í heildsölu af birgja og selja aftur til neytenda. Stundum er aukið birgðahald og dreifing á höndum smásöluaðila en oft er því öllu útvistað. Dæmi um þetta er eldsneytissala Costco á Íslandi sem er í viðskiptasambandi við Skeljung um elsdsneyti og birgðadreifingu að stöð félagsins í Garðabæ. Costco býður sínum viðskiptavinum upp á 13 krónu lægra lítraverð á bensíni en ódýrustu stöðvar Orkunnar sem Skeljungur rekur.
Ef Equinor byði ekki samkeppnishæft verð þá færu félög á íslenska olíumarkaðnum með sín viðskipti annað. Hvers vegna forstjóri Skeljungs reynir að halda öðru fram vekur undrun.
Í viðtalinu er Þórður Guðjónsson spurður hvort olíufélögin séu samt sem áður ekki að halda eldsneytisverðinu óeðlilega háu. Hann er ekki vissari í sinni sök sen svo að hann svarar „Nei, ég myndi ekki segja það.“ Síðar segir hann að „hagnaður olíufélaganna á Íslandi hafi minnkað”. Aftur fer hann að tjá sig fyrir hönd allra aðila á íslenska olíumarkaðnum.
Ekki virðist forstjórinn hafa greinargóðar upplýsingar um rekstur eigin félags. Hann telur að framlegðin sé komin undir tíu prósent, er samt ekki alveg viss og bætir svo við. „Ætli hún hafi ekki verið fyrir covid svona 14-15 prósent, jafnvel upp í 16-17%.“ Þetta er langt því frá að vera léleg framlegð enda er hún í krónutölu jafn há núna og fyrir heimsfaraldurinn, en þá kostaði lítrinn nær 200 krónum meðan hann kostar núna yfir 300 krónur.
Í grunninn breyta ummæli forstjóra Skeljungs engu um þá niðurstöðu FÍB að íslensku olíufélögin hafi með sér þegjandi samráð um að lækka ekki útsöluverð á bensíni og dísilolíu þrátt fyrir lækkandi verð eldsneytis á heimsmarkaði. Samanburðurinn við Danmörku er sláandi, þar fylgir útsöluverðið heimsmarkaðsverðinu en hér hefur útsöluverðið haldist óbreytt mörgum mánuðum eftir að heimsmarkaðsverðið fór að lækka til muna.
Meðfylgjandi línurit sýnir þróun bensínverðs á Íslandi og í Danmörku í samanburði við heimsmarkaðsverð á Norður Evrópumarkaði á bensíni. Allar tölur hafa verið uppreiknaðar yfir í íslenskar krónur á lítra út frá skráðu viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands.
Þróun bensínverðs í Danmörku og á Íslandi og þróun heimsmarkaðsverðs á bensíni frá 1. janúar 2022.
Allar tölur uppreiknaðar yfir á íslenskar krónur á lítra.