Hvers vegna er talað niður til Alzheimer-sjúklinga í pólitískri baráttu?
Fyrir nokkrum dögum fór allt á annan endann í Washington, þegar það spurðist út að starfsmaður í Hvíta Húsinu hefði gert lítið úr andstöðu John McCain, öldungadeildarþingmanns repúblikana við tilnefningu Trumps forseta á nýjum forstjóra CIA. Starfsmaðurinn fór niðrandi orðum um McCain, sem væri „hvort sem er að deyja“.
John McCain barðist í Víetnamstríðinu, var handtekinn, sat í fangelsi í Norður-Víetnam og sætti pyntingum.
Ummælin voru fordæmd af fólki úr báðum flokkum á Bandaríkjaþingi.
En það er víðar en í Hvíta Húsinu sem fólk kann ekki mannasiði.
Það virðist eiga við um ráðhús Reykjavíkur líka. Á fundi í forsætisnefnd borgarstjórnar fyrir skömmu var Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, ítrekað spurður, hvort hann væri með Alzheimer og augljóst að sú, sem þannig spurði var ósátt við málflutning hans á fundi nefndarinnar.
Fyrr á tíð var það of algengt að sagt var við fólk: Þú talar bara eins og geðsjúklingur. Eða sagt var um fólk: Hann er bara geggjaður eða hann er bara Kleppstækur.
Þeim, sem þekktu til geðsýki þótti þetta ekki fyndið.
Nú eru viðhorf til geðsjúkra gjörbreytt og ekki talið við hæfi að gera lítið úr andstæðingi í umræðum um stjórnmál með því að tala niður til geðsjúkra.
En skv. því, sem Kjartan Magnússon upplýsir nú er gripið til Alzheimer til að gera lítið úr fólki.
Það má fullyrða, að þeim sem þekkja til Alzheimers í daglegu lífi er ekki skemmt, þótt ráðsmenn í ráðhúsinu líti á svona tal sem „svartan húmor“.
Hvers vegna að tala niður til þeirra, sem þjást af Alzheimer?
Vonandi hefur Kjartani Magnússyni tekizt að stöðva svona tal í eitt skipti fyrir öll með því að brjóta „leyndina“ í ráðhúsinu.“ Segir Styrmir Gunnarsson, f.v. Ritstjóri Morgunblaðsins.