Um mitt ár 2023 framkvæmdi Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands könnun að beiðni Samkeppniseftirlitsins um viðhorf almennings til ýmissa þátta tengdum samkeppnismálum. Könnunin er sambærileg könnun sem Samkeppniseftirlitið lét framkvæma árið 2019 og könnunum sem framkvæmdastjórn ESB lét framkvæma í öllum aðildarríkjum árin 2022 og 2019. Gefur hún því færi á samanburði við viðhorf almennings yfir tíma og við aðildarríki ESB.
Meginniðurstöður könnunarinnar og samanburður við fyrri könnun hér á landi sem og nýlega könnun ESB má finna hér . Samandregið eru niðurstöðurnar eftirfarandi.
Vandamál sökum skorts á samkeppni útbreidd hér á landi
- Um og yfir 8 af hverjum 10 Íslendingum hafa upplifað vandamál sökum skorts á samkeppni í samanburði við um 6 af hverjum 10 í ESB.
- Íslendingar verða mest varir við vandamál sökum skorts á samkeppni á matvörumarkaði (36%), í fjármálaþjónustu (35%) og farþegaþjónustu (26%). Í könnun ESB nefna hins vegar flestir orkumarkað, matvörumarkað og síma- og netþjónustu.
- Hátt verð og lítill verðmunur oftast nefnt þegar spurt er hver séu helstu vandamálin á viðkomandi mörkuðum.
Jákvætt viðhorf almennings til samkeppnismála
- 94% svarenda telja virka samkeppni hafa góð áhrif á sig sem neytendur. Viðhorf almennings til jákvæðra áhrifa samkeppni jákvæðara hér á landi (86%) en í ESB (75%).
- Um 8 til 9 af hverjum 10 telja að stefna stjórnvalda sem ýtir undir virka samkeppni geti haft gagnleg áhrif á nýsköpun, hagvöxt, atvinnustig og stuðli að betri og ódýrari vörum og þjónustu fyrir alla.
Mikill stuðningur við aðgerðir til að auka samkeppni
- Nær allir svarendur telja mikilvægt, til að hvetja til aukinnar samkeppni, að koma í veg fyrir samráð og að sterkir aðilar misnoti stöðu sína (97%).
- Hærra hlutfall almennings hér á landi er sammála mikilvægi aðgerða til þess að hvetja til aukinnar samkeppni (90%) í samanburði við meðaltal ESB (82%).
- Um 8 af hverjum 10 svarendum telja mikilvægt að draga úr forskoti frá samkeppnisaðilum sem njóta ríkisstyrkja innan og utan Evrópska efnahagsvæðisins.
Almenningur meðvitaður um samkeppnismál
- Færri Íslendingar heyrðu eða lásu um samkeppnismál árið 2023 (58%) samanborið við 2019 (68%). Í könnun ESB höfðu 5 af hverjum 10 gert slíkt.
- 8 af hverjum 10 nefndu Samkeppniseftirlitið þegar spurt var hjá hverjum það samkeppnismál sem viðkomandi hafði heyrt um eða lesið var til meðferðar samanborið við 6 af hverjum 10 í könnun ESB.
Bakgrunnsupplýsingar:
Könnuninni svöruðu 1.247 einstaklingar. Í könnuninni var spurt um viðhorf almennings til eftirfarandi þátta:
- Áhrifa samkeppni á neytendur og efnahagslífið.
- Persónulegrar reynslu af vandamálum vegna skorts á samkeppni, flokkað eftir geirum og birtingarmynd vandamálanna. Nánar tiltekið var spurt um samkeppni í síma- og netþjónustu, farþegaþjónustu, matvörumarkaði, fjármálaþjónustu, lyfjamarkaði og orkumarkaði.
- Hvort og hvar viðkomandi hafi heyrt eða lesið um samkeppnismál og hvar málið hafi verið til meðferðar.
- Hvert almenningur leiti ef hann verður áskynja um samkeppnisvandamál.
Nánari upplýsingar um könnunina, samanburð við niðurstöður könnunar sem framkvæmd var árið 2019 og niðurstöður nýlegrar könnunar ESB má finna í riti Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2024 , Viðhorf almennings til samkeppnismála. Þá má finna skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um könnunina hér.