Ráðherra leynir enn upplýsingum um hverjir fengu 3.600 íbúðarhús á 15 millj. kr. að meðaltali, þrátt fyrir leyfi Persónuverndar
Þorsteinn Sæmundsson tók þátt í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag, hann spurði þar félags- og barnamálaráðherra út í fyrirspurn sína um sölu fullnustueigna Íbúðalánasjóðs sem enn er ósvöruð:
Nú háttar svo til að sá sem hér stendur hefur sjö sinnum lagt sömu fyrirspurn fyrir félags- og barnamálaráðherra án þess að svör hafi borist og borið er við ýmsum hlutum; trúnaðarskyldu, persónuvernd o.fl. Persónuverndarlög eiga ekki við um störf Alþingis, þau gilda ekki þar. Ekki ríkir sérstakur trúnaður á þeim upplýsingum sem Alþingi fær afhentar.
Fyrir atbeina forseta vann yfirlögfræðingur Alþingis mjög gott minnisblað til þess að reyna að styrkja málstað Alþingis og alþingismanna í baráttu þeirra við ráðherra til þess að fá svör við fyrirspurnum sínum. Þar kemur skýrt fram, í þessu minnisblaði sem félags- og barnamálaráðherra hefur fengið til yfirlestrar, a.m.k. tvisvar sinnum, að honum beri að svara fyrirspurnum, og þar á meðal fyrirspurn sem hér hefur verið sett fram sjö sinnum, um fullnustueignir Íbúðalánasjóðs.
Hér segir í lok minnisblaðsins að synjun félags- og barnamálaráðherra á því að veita umbeðnar upplýsingar hafi ekki verið í samræmi við tilvitnuð ákvæði þingskapa Alþingis. Því spyr ég (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra: Hyggst hann halda áfram að fara á svig við lög um þingsköp og ráðherraábyrgð? Eða hyggst hann svara þeirri fyrirspurn sem nú hefur komið fram sjö sinnum?
https://www.facebook.com/midflokkur/videos/261746241599330/UzpfSTE0ODU2MDg4NTQ6ODc2MTUzNzQ2MjE5OTAz/
https://gamli.frettatiminn.is/radherra-leynir-enn-upplysingum-um-hverjir-fengu-3-600-ibudarhus-thratt-fyrir-leyfi-personuverndar/
https://gamli.frettatiminn.is/moguleiki-er-ad-stefna-radherrunum-fyrir-dom-til-ad-fa-upplysingarnar-fram/