Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, kallaði saman aukafund í útvíkkuðu Þjóðhagsráði í gær en meginefni hans var hvernig Ísland geti markað sér leið til framtíðar á sviði efnahags, samfélags og umhverfis í kjölfar heimsfaraldursins.
Ángel Gurría, aðalframkvæmdastjóri OECD, Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, ávarpaði fundinn með rafrænum hætti og sagði árangur Íslands í baráttunni gegn heimsfaraldrinum einstakan. Efnahagskreppan nú væri hin mesta frá heimskreppunni á 4. áratug síðustu aldar. Ástæða væri til að hafa áhyggjur af litlum, opnum hagkerfum og félli Ísland í þann flokk. Fyrir efnahagslega viðspyrnu Íslands skipti miklu máli að ferðaþjónustan blómstraði á nýjan leik og að Ísland setti kraft í nýsköpun til að auka framleiðni í hagkerfinu og búa til nýja vaxtarsprota til framtíðar.
Fundinn sátu fastir meðlimir Þjóðhagsráðs sem eru formenn stjórnarflokkanna, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, seðlabankastjóri og forystufólk heildarsamtaka á vinnumarkaði. Að auki sátu fundinn formenn stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi og fleiri fulltrúar af vinnumarkaði.
Forsætisráðherra sagði í lok fundar að samtal þessara aðila væri mikilvægt til að skapa sem breiðasta samstöðu um mikilvæg markmið um kolefnishlutleysi, sjálfbærni og tækniframfarir. Næstu skref í því samtali yrðu kynnt á næstunni.