Vestmannaeyjabær hefur krafist tæpra tveggja milljarða króna í bætur af hálfu Vinnslustöðvarinnar, Huginn og VÍS. Þetta er fyrir það tjón sem skip þessara félaga, Huginn VE-55, olli á vatnsleiðslu í eigu bæjarins 17. nóvember 2023. Stefnan var þingfest í Héraðsdómi Suðurlands í dag.
„Það er auðvitað algjörlega óásættanlegt að íbúar hér í Vestmannaeyjum þurfi að bera skaðann af því í hærri gjöldum og sköttum að stórfellt gáleysi af hálfu útgerðar Hugins hafi valdið bæjarbúum milljarða tjóni. Sá á að bæta tjón sem veldur,“ segir Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja í samtali við Vísi í dag.
Vestmannaeyjabær, HS Veitur og fleiri ákváðu að höfða mál gegn Vinnslustöðinni og var málið í undirbúningi þann 22 janúar á þessu ári. Bótakrafan hljóðar nú upp á tvo milljarða króna.
Þá kom fram að lögreglan hefði fellt niður rannsókn á máli skipverja Hugins frá Vestmannaeyjum vegna skemmda á vatnsleiðslu og ljósleiðarastreng við Vestmasnnaeyjahöfn.
Neysluvatnsleiðslan til Vestmannaeyja og ljósleiðari skemmdust þegar akkeri Hugins VE, sem Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum gerir út, rakst í þær í nóvember 2023. Hættuástand almannavarna varð í Vestmannaeyjum við skemmdirnar.
Þrír skipverjar á Hugin, skipstjóri, yfirstýrimaður og yfirvélstjóri fengu réttarstöðu sakbornings við rannsókn málsins og samdi útgerðin um starfslok skipstjóra og stýrimanns. Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum hefur lokið rannsókn á þætti skipverjanna þriggja.
Segist ekki eiga Tortólafélag með sama nafni og ehf. félag – Krafist milljarða fyrir makrílkvóta