Hljóta að skoða bótarétt
Nokkur af stærri innflutningsfyrirtækjum landsins, þar á meðal félagsmenn í Félagi atvinnurekenda, hafa sent Samkeppniseftirlitinu beiðni um upplýsingar vegna sáttar Eimskips við eftirlitið, sem birt var um miðjan júní. Þar viðurkenndi Eimskip alvarleg brot á samkeppnislögum sem fólust í samráði við keppinautinn Samskip, m.a. um skiptingu markaða eftir stærri viðskiptavinum og um álagningu gjalda og afsláttarkjör í flutningaþjónustu.
Þess ber að geta að rannsókn á þætti Samskipa stendur enn og hefur fyrirtækið ekki viðurkennt samkeppnisbrot.
Upplýsingabeiðnin snýr að því hvort upplýsingar um viðkomandi fyrirtæki komi fram í gögnum rannsóknar Samkeppniseftirlitsins á samráði skipafélaganna og er farið fram á aðgang að gögnum málsins í heild sinni, en til vara þeim gögnum sem varða einstaka fyrirtæki.
Hljóta að skoða bótarétt sinn
„Þau brot sem Eimskip hefur viðurkennt eru alvarleg brot á samkeppnislögum, enda hefur fyrirtæki aldrei greitt hærri sekt vegna samkeppnisbrota,“ segir Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður FA, sem hafði milligöngu um upplýsingabeiðni fyrirtækjanna til Samkeppniseftirlitsins, í umfjöllun um málið í Viðskiptablaðinu í dag.
„Umrædd samkeppnisbrot eru þess eðlis að þar eru bæði gerendur og þolendur. Þeir sem hafa þurft að þola brot hljóta að skoða bótarétt sinn gagnvart hinum brotlegu. Í ljósi þess hversu umfangsmikil brotin eru sem Eimskip hefur viðurkennt og yfir hversu langan tíma þau ná kann bótarétturinn að vera umtalsverður í ákveðnum tilvikum. Nú þegar eru nokkur fyrirtæki að skoða stöðu sína og búast má við að fleiri bætist við,“ er haft eftir Páli Rúnari.