Fjármála og efnahagsráðuneytið safnar mánaðarlegum upplýsingum um fjárhagsleg afdrif fólks sem hafði búsetu eða starf í Grindavík í október 2023 og veltu fyrirtækja í Grindavík. Upplýsingunum er safnað í þeim tilgangi að fylgjast með hvernig fólki sem orðið hefur fyrir beinum áhrifum af jarðhræringum og eldgosum við bæinn reiðir af í kjölfarið. Í umfjöllun á vef ráðuneytisins 6. júní síðastliðinn voru birtar tölur sem náðu til mars síðastliðins. Hér birtast uppfærðar tölur sem ná þangað til í maí.
Í október í fyrra störfuðu rúmlega 2.600 manns hjá aðilum með heimilisfesti í Grindavík. Meðal fólks í þessum hópi fengu um 2.200 manns enn laun frá aðilum í sveitarfélaginu í maí. Eftir fækkun í upphafi jarðhræringanna hefur ekki orðið mikil breyting á fjölda launþega hjá fyrirtækjum í Grindavík undanfarna mánuði.
Sé horft til þeirra 2.600 sem fengu laun frá aðilum innan Grindavíkur í október fengu um 280 manns í þeim hópi greidd laun frá aðilum utan bæjarins í þeim mánuði, áður en jarðhræringar við bæinn hófust. Í maí síðastliðnum fengu um 500 af þessum 2.600 greidd laun fá aðilum utan Grindavíkur eða um 220 fleiri en í október. Af þeim 2.600 sem störfuðu hjá aðilum í Grindavík í október fengu 50 greiddar atvinnuleysisbætur í maí síðastliðnum og 100 höfðu ekki skráðar tekjur á Íslandi.
Velta fyrirtækja í Grindavík var 25% lægri í mars-apríl 2024 en á sama tímabili árið áður; á landinu öllu jukust tekjur fyrirtækja um 1% á sama tíma. Tekjuþróun fyrirtækja í Grindavík var misjöfn eftir atvinnugreinum eins og sést á meðfylgjandi mynd