,,Áhrifaleysi minnsta flokksins í þessari ríkisstjórn kemur líklega engum á óvart lengur“
Því ber að fagna að ríkisstjórnin hafi uppgötvað fjórðu iðnbyltinguna og vilji gera fyrirtækjum kleift að takast á við hana. En það er best gert með því að veita fyrirtækjum rétta hvata og veita þeim frelsi. Raunveruleikinn sem blasir við er hins vegar sívaxandi regluverk og hindranir.
Á sama tíma er haldið áfram að flækja skattkerfið. Fyrir fáeinum árum kynnti fjármálaráðherra stoltur, sem von var, að skattkerfið yrði einfaldað og skattþrepum fækkað úr þremur í tvö. Nú tilkynnir sami ráðherra að kerfið verði flækt aftur og þrepunum fjölgað úr tveimur í þrjú. Eldri borgarar og aðrir lífeyrisþegar þurfa þó enn að bíða áfram eftir því að loforð um sanngjarnara lífeyriskerfi verði uppfyllt og tekið verði almennilega á óskynsamlegum og óeðlilegum skerðingum. Ekki vantar þó að ríkisstjórnin finni upp ný nöfn á hlutina að hætti orwellskra stjórnmála. Nú er svokallað velsældarhagkerfi kynnt til sögunnar með þeim leiðbeiningum að því verði náð með stefnumótun og fjárútlátum sem styðji við velsældarmarkmiðin. Sú vinna mun væntanlega kalla á fjölmargar nýjar nafngiftir og enn meira eftirlit á flestum sviðum, en eins og þingmenn voru minntir á í predikun í gær getur það endað illa þegar menn reyna að skipuleggja guðsríki á jörð. Líkur eru á að slíkar tilraunir skili sér ekki í velsældarhagkerfi heldur vesældarhagkerfi.
Áhrifaleysi minnsta flokksins í þessari ríkisstjórn kemur líklega engum á óvart lengur, enda flokkurinn löngu búinn að sýna að hann sé til í hvað sem er bara ef hann fær að vera með, og virðist ánægður með að fá að kynna sömu málin aftur og aftur. Það hefur hins vegar komið mér meira á óvart að sjá hvað Sjálfstæðisflokkurinn lætur yfir sig ganga af hálfu leiðandi flokksins í ríkisstjórninni.
Sjálfstæðisflokkurinn var með ráðherra sem mátti eiga það að hann var pólitískur og virtist ætla að fylgja ákveðinni stefnu. Vinstri græn sáu hins vegar um að koma þeim ráðherra úr ríkisstjórninni. Leiðandi flokkur ríkisstjórnarinnar virðist hafa meira svigrúm en hinir til að reka sína pólitík. Umhverfisráðherra fær að innleiða eigin stefnu án tillits til laga. Heilbrigðisráðherrann vinnur að því að koma á marxísku heilbrigðiskerfi en býr um leið til tvöfalt heilbrigðiskerfi. Og forsætisráðherrann kemur sínum málum í gegn og lætur fylgja yfirlýsingar sem maður hefði haldið að samstarfsmenn í ríkisstjórn myndu telja jafnvel óhugnanlegar.
Þá sagði Sigmundur Davíð jafnframt ,, Forseti þingsins hefur farið frjálslega með þingsköpin, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Um leið situr ríkisstjórn sem er ekki mynduð um stefnu heldur stóla.“