Hagkaup opnar áfengisverslun sína í dag að því er fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Áfengissalan er þó mjög frábrugðin verslun ÁTVR þar sem fólk þarf að kaupa áfengi í gegnum heimasíðu sem er skráð á Hagar Wine, sem Haugkaup segist vera í samstarfi við í tilkynningu. Áfengið er svo afhent í verslun Hagkaups í Skeifunni.
„Við fögnum því að geta loks boðið viðskiptavinum okkar upp á þessa þjónustu. Hagkaup hefur alltaf haft hag viðskiptavina að leiðarljósi og verið í fararbroddi þegar kemur að verslunarfrelsi og nýjungum í verslun. Þessi nýja þjónusta er kærkomin viðbót fyrir þann stækkandi hóp sem sækist eftir auknum þægindum og tímasparnaði og getur núna keypt meira til heimilisins í einni ferð”, segir Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups. Afgreiðslutími netverslunar á áfengi er takmarkaður frá 12:00 til 21:00 dag hvern og er afhent samdægurs.