Í fjölmiðlum hefur komið fram að einstaklingur á höfuðborgarsvæðinu haldi villtan ref. Greina má á myndböndum sem birt hafa verið að dýrið sýnir augljós merki streituviðbragða og vanlíðanar. Samkvæmt lögum um velferð dýra er óheimilt að halda villt dýr. Markmiðið með ákvæði þessu er að tryggja að villt dýr séu ekki höfð í haldi að tilefnislausu og að fólk taki ekki villt dýr og ali sér til skemmtunar eða ávinnings til lengri eða skemmri tíma.
Einu undanþágurnar sem lögin gera ráð fyrir eru fyrir dýragarða, söfn og til rannsókna eða ræktunar, að undangengnu leyfi yfirvalda. Forsenda fyrir slíkri undanþágu er að hin villtu dýr séu haldin í umhverfi sem tekur tillit til þeirra náttúrulega eðlis og þarfa.
Matvælastofnun vekur athygli á að brot á ofangreindu ákvæði geta varðað sekt eða allt að eins árs fangelsi sbr. 45. gr. laga um dýravelferð.
Matvælastofnun hvetur eindregið hvern þann sem verður var við, eða hefur upplýsingar um að brotið sé á villtum dýrum og velferð þeirra, að tilkynna það án tafa til stofnunarinnar.
Umræða