Ólafur Hafsteinn fór í forsætisráðuneytið og ítrekaði beiðni sína um fund með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra
Ólafur Hafsteinn Einarsson óskaði í september eftir fundi með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, en hann var vistaður í kvennafangelsinu á Bitru á Suðurlandi ásamt öðrum fötluðum einstaklingum. Hann ítrekaði beiðni sína við forsætisráðherra nú á dögunum. Svar ráðuneytis barst honum í dag, 12. nóvember. Hann berst enn við báknið.
Ólafur Hafsteinn var, ásamt fleiri fötluðum einstaklingum vistaður á Bitru í Hraungerðishreppi þar sem rekið var kvennafangelsi samkvæmt samningi við stjórnvöld en einnig var þar rekin þjónusta við fatlað fólk af sömu aðilum. Ólafur fundaði með fyrrverandi dómsmálaráðherra, Sigríði Á. Andersen, þann 7. mars 2018 og hafa stjórnvöld ekki enn brugðist við þessu alvarlega máli.
„Enginn hefur borið brigður á þær lýsingar mínar og þær eru studdar af opinberum gögnum. Þrátt fyrir það hef ég enn ekki fengið nein viðbrögð frá hlutaðeigandi ábyrgum stjórnvöldum.“
Þann 4. nóvember s.l. fór Ólafur Hafsteinn í forsætisráðuneytið og ítrekaði beiðni sína um fund með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra.
Svar ráðuneytisins, dagsett 1. nóvember, barst svo Ólafi í morgun 12. nóvember. Þar kemur fram að forsætis- og dómsmálaráðuneyti vinni nú að frumvarpi til laga um breytingar á lögum um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum þar sem börn voru vistuð.
Til standi að gera það kleift að taka á málum fatlaðra barna sem voru vistuð á stofnunum sem ekki hafa þegar verið kannaðar. Þannig megi ljúka samfélagslegu uppgjöri vegna vistunar barna á stofnunum á vegum hins opinbera á árum áður. Jafnframt hafi komið til skoðunar hvort bjóða eigi upp á úrræði sem gerði kleift að koma til móts við aðra sem búið hafa við óforsvaranlegar aðstæður eða meðferð á stofnunum á ábyrgð hins opinbera.
Ef Ólafur vill enn hitta ráðherra á fundi, standi það til boða þegar færi gefst.