-4.2 C
Reykjavik
Fimmtudagur - 9. febrúar 2023
Auglýsing

Covid: Ferðaskrifstofa neitaði að endurgreiða fjölskylduferð upp á rúma milljón

Auglýsing

Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

Fjölskylda hugðist fara í ferð ásamt stórfjölskyldu sinni, foreldrum, systkinum og fjölskyldum þeirra í ferð til Madonna di Campoglio á Ítalíu frá 29. febrúar til 7. mars 2020 um var að ræða hjón og tvö börn þeirra. Heildargreiðsla fyrir ferðina var 1.125.131 krónur. Í ferðinni fólst flug frá Keflavík til Verona á Ítalíu og til baka, rútuferð til og frá Verona til Madonna di Campiglio og hótelgisting í sjö nætur.

Þann 28. febrúar 2020 var ferðin afpöntuð af hálfu bróður mannsins,  fyrir hans hönd og  annarra  fjölskyldumeðlima  vegna  útbreiðslu COVID-19  sjúkdómsins  í Evrópu. Þann 2. mars 2020 barst manninum staðfesting frá ferðaskrifstofunni um að afpöntunin væri móttekin en tekið var fram að ferðin verði ekki endurgreidd samkvæmt skilmálum.  Fjölskyldan  krafðist  þess  að ferðaskrifstofan endurgreiddi 1.125.131 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 13. mars 2020. en því var hafnað.

Í kvörtun sinni kveðst maðurinn hafa fylgst grannt með stöðu mála á Ítalíu þegar líða tók að brottför. Hafi hann vonast til þess að ástandið á Ítalíu færi batnandi en þann 28. febrúar 2020, degi fyrir brottför, hafi verið orðið ljóst að það myndi ekki gerast.

Þann 25. febrúar 2020 hafði Embætti landlæknis birt tilkynningu þess efnis að sóttvarnarlæknir hafi ráðlagt gegn ónauðsynlegum ferðum til fjögurra héraða á Norður- Ítalíu en í tilkynningunni kom fram að ekki væri átt við skíðasvæði á Norður-Ítalíu því engin tilfelli höfðu borist þaðan á þeim tíma. Þann 28. febrúar 2020 var svo tilkynnt um að íslenskur karlmaður hafi verið greindur með COVID-19 sjúkdóminn eftir skíðaferð utan skilgreinds áhættusvæðis. Maðurinn hafði verið í skíðaferð í bænum Andalo, skammt frá Madonna.

Í kjölfarið ákvað maðurinn að afpanta ferðina fyrir sig og fjölskyldu sína. Degi síðar, sama dag og ferðalag sóknaraðila átti að hefjast, skilgreindi Embætti landlæknis alla Ítalíu sem áhættusvæði og ráðlagði gegn ónauðsynlegum ferðum þangað. Þá taldi maðurinn miklar líkur á því að öllum íslendingum sem kæmu frá Norður-Ítalíu yrði skipað í 14 daga sóttkví við heimkomu, sem síðar varð raunin. Hann bendir einnig á að eiginkona hans hafi verið ófrísk á þessum tíma og ekki hafi verið vitað hvaða afleiðingar mögulegt smit gæti haft á fóstrið.

Hann telur að sér hafi verið heimilt að afpanta ferðina samkvæmt lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Þá bendir hann á að ferðamaður eigi samkvæmt lögum rétt á fullri endurgreiðslu ef ferð hefur verið afpöntuð vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna, sem ekki eru á valdi ferðamanns, og hafi veruleg áhrif á fyrirhugaða ferð.

Sjónarmið ferðaskrifstofunnar

Í andsvörum sínum bendir ferðaskrifstofan á að ferðin hafi ekki verið felld niður og maðurinn hafi því þurft að greiða kostnað vegna ferðarinnar að fullu. Í bréfinu segir ferðaskrifstofan að lög nr. 95/2018 um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun geri ekki ráð fyrir því að hægt sé að afpanta ferð með nokkurra klukkustunda fyrirvara enda yrði ekki hægt að reka ferðaskrifstofur við slíkar aðstæður. Ferðaskrifstofan bendir á að hann hafi þurft að greiða fyrir flugið og hótelið enda hafi ekki verið hægt að bregðast við afbókuninni svo stuttu fyrir brottför.

Þá verði óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður vegna smitsjúkdóma ekki til fyrr en yfirvöld hafi lagt bann við ferðalögum eða mælst eindregið gegn því að farið sé í ferðalög til ákveðinna svæða. Þær aðstæður hafi ekki verið til staðar þegar maðurinn afpantaði ferðina. Á þeim tíma sem ferðin var farin hafi embætti Landlæknis ekki lagst gegn ferðum til Verona og Madonna á Ítalíu. Í fréttatilkynningu embættisins þann 28. febrúar 2020 hafi fjögur héruð á norðanverðri Ítalíu verið skilgreind með mikla og litla smitáhættu.  Var  þar  tekið  fram  að  önnur  svæði  á  Ítalíu  væru  skilgreind  með  litla smitáhættu og að ekki væri þörf á sóttkví fyrir aðila sem voru nýkomnir af þeim svæðum. Þann 1. mars 2020 hafi Ítalía öll verið skilgreind sem svæði með mikla smithættu. Þau atvik sem urðu í framhaldinu hafi verið ófyrirsjáanleg af hálfu ferðaskrifstofunnar enda um fordæmalausar aðstæður að ræða.

Niðurstaða:

Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa starfar samkvæmt lögum nr. 81/2019 um úrskurðaraðila á sviði neytendamála og reglugerðar nr. 1177/2019 um kærunefnd vöru- og þjónustukaupa sem hvoru tveggja tóku gildi þann 1. janúar 2020.

Sóknaraðili greiddi alls 1.125.131 krónur til varnaraðila vegna ferðar sem sóknaraðili, eiginkona hans og tvö börn þeirra hugðust fara í frá 29. febrúar til 7. mars

Öll stórfjölskylda sóknaraðila, foreldrar, systkini og fjölskyldur þeirra, hugðist fara með í umrædda ferð. Í ferðinni sem sóknaraðili festi kaup á fólst flug til og frá Verona, rútuferð frá Verona til og frá Madonna di Campoglio og hótelgisting í sjö nætur fyrir sóknaraðila, eiginkonu hans og tvö börn þeirra. Degi fyrir brottför, þann 28. febrúar 2020, afpantaði bróðir sóknaraðila ferðina fyrir hönd allrar fjölskyldunnar vegna útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins. Sóknaraðili krafðist endurgreiðslu fyrir ferðina en varnaraðili hefur hafnað kröfu sóknaraðila.

Lög nr. 95/2018 um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun gilda um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun sem seljendur bjóða til sölu, selja eða hafa milligöngu um sölu á til ferðamanna samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna. Með lögunum voru ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2302, frá 25. nóvember 2015, innleidd í íslenskan rétt. Sóknaraðili óskaði eftir og greiddi fyrir ferðatengda þjónustu varnaraðila sem fólst í flutningi farþega, gistingu og aðra ferðatengda þjónustu í skilningi laga 95/2018. Sú þjónusta sem sóknaraðili og varnaraðili sömdu um telst því pakkaferð í skilningi 2. tl. 4. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2018 getur ferðamaður afpantað pakkaferð áður en ferðin hefst gegn greiðslu sanngjarnrar þóknunar. Í samningi um pakkaferð er heimilt að tilgreina sanngjarna þóknun fyrir afpöntun ferðar sem tekur mið af því hversu löngu fyrir upphaf ferðarinnar afpantað er og áætluðum tekjumissi skipuleggjanda eða smásala. Ef ekki er samið um staðlaða þóknun í samningi skal þóknunin samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins svara til tekjumissis skipuleggjanda eða smásala. Skipuleggjandi eða smásali á samkvæmt 3. mgr.  hins vegar ekki rétt á greiðslu þóknunar  ef afpöntun er vegna óvenjulegra eða   óviðráðanlegra   aðstæðna   sem   hafa   veruleg   áhrif   á   framkvæmd pakkaferðar eða flutning farþega til ákvörðunarstaðar […]. Ferðamaður á ekki rétt til frekari skaðabóta þegar 3. mgr. á við, samkvæmt 4. mgr. ákvæðisins. Skipuleggjanda eða smásala ber að endurgreiða ferðamanni greiðslur innan 14 daga frá afpöntun.

Af gögnum málsins verður ráðið að ágreiningur aðila varði einna helst hvort þær aðstæður sem voru uppi þann 28. febrúar 2020 falli undir skilgreininguna á óvenjulegum eða óviðráðanlegum aðstæðum. Samkvæmt 11. tl. 4. gr. laga nr. 95/2018 eru óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður þær aðstæður sem eru ekki á valdi þess aðila sem ber þær fyrir sig og ekki hefði verið hægt að komast hjá þeim jafnvel þótt gripið hefði verið til réttmætra ráðstafana. Í athugasemdum við 3. mgr. 15. gr. segir í frumvarpi til laganna að óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður geti verið stríðsástand, útbreiðsla farsótta eða sjúkdóma, hryðjuverk, pólítískur óstöðugleiki eða aðrar aðstæður sem hafa afgerandi áhrif á ferðalög til viðkomandi staða.

Samkvæmt   3.   mgr.   15.   gr.   laga   nr.   95/2018   þurfa   hinar   óvenjulegu   og óviðráðanlegu aðstæður annað hvort að hafa veruleg áhrif á framkvæmd pakkaferðar eða á flutning farþega til ákvörðunarstaðar. Til stóð að sóknaraðili og fjölskylda hans dveldu á Ítalíu í eina viku. Þegar sóknaraðili afpantaði ferðina þann 28. febrúar 2020 höfðu stór svæði á norðanverðri Ítalíu verið skilgreind sem áhættusvæði af íslenskum yfirvöldum vegna fjölda smita víða um Evrópu sem rakin voru til svæðisins. Þá hafði heildarfjöldi greindra smita á Ítalíu aukist verulega á aðeins fjórum dögum og farið úr 229 tilfellum þann 24. febrúar 2020 í 821 tilfelli þann 28. febrúar 2020. Var því ljóst að aðstæður breyttust hratt á Ítalíu og um alla Evrópu. Sama dag og sóknaraðili afpantaði ferðina hafði fyrsti einstaklingurinn á Íslandi greinst með COVID-19, eftir ferðalag til bæjar skammt frá Madonna di Campoglio.

Íslensk sóttvarnaryfirvöld skilgreindu Ítalíu í heild sem hááhættusvæði degi síðar, sama dag og pakkaferðin átti að hefjast þann 29. febrúar 2020. Við upphaf ferðarinnar var ferðalag til áfangastaðarins þar með talið fela í sér mikla hættu á smiti af COVID-19 sjúkdómnum að mati íslenskra sóttvarnaryfirvalda. Fallist er á það með sóknaraðila að sú hætta hafi haft aukið vægi við ákvörðun sóknaraðila og fjölskyldu hans um að afpanta ferðina vegna aðstæðna þar sem eiginkona sóknaraðila var ófrísk á þeim tíma og alls óvíst um áhrif sjúkdómsins á barnshafandi konur og ófætt barn þeirra. Þann dag varð einnig ljóst að einstaklingar sem kæmu til Íslands frá Ítalíu yrðu að fara í sóttkví í tvær vikur eftir heimkomu með tilheyrandi óhagræði.

Með hliðsjón af öllum atvikum málsins verður að fallast á það með sóknaraðila að aðstæður  á  Ítalíu  hafi  við  upphaf  ferðarinnar  verið  óvenjulegar  og  óviðráðanlegar  í skilningi laga nr. 95/2018 um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Voru aðstæður þess eðlis að þær höfðu veruleg áhrif á framkvæmd pakkaferðarinnar fyrir sóknaraðila og fjölskyldu  hans.  Var  sóknaraðila  heimilt  að  afpanta  ferðina  án  greiðslu  þóknunar samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2018. Er   því fallist á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila beri að endurgreiða honum alls 1.125.131 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. mars 2020 til greiðslud

Úrskurðarorð

Varnaraðila, Y, ber að greiða sóknaraðila, X, 1.125.131 krónur ásamt vöxtum frá 13. mars 2020 til greiðsludags. Málskotsgjald að fjárhæð 5.000 krónur verður endurgreitt sóknaraðila samkvæmt a. lið 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 1177/2019 um kærunefnd vöru og þjónustukaupa. Varnaraðila ber að greiða málskostnaðargjald að fjárhæð 35.000 krónur með vísan til 3. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 1177/2019 um kærunefnd vöru og þjónustukaupa.

Lögmannsstofan Málsvari rekur innheimtumál á hendur ferðaskrifstofu vegna ferðar Menntaskólans á Akureyri