Maðurinn sem féll í Núpá er enn ófundinn
Hercules, flugvél danska flughersins, tók rétt í þessu á loft frá Keflavíkurflugvelli. Um borð eru 5 starfsmenn Landhelgisgæslunnar, þar af fjórir kafarar, um 30 björgunarsveitarmenn frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg auk starfsmanna frá RARIK og Landsneti.
Fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni að jafnframt sé búnaður björgunarsveitanna innanborðs, auk bíls séraðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar og rafstrengur til að tengja varðskipið Þór við land á Dalvík.
TF-LIF og TF-EIR, þyrlur Landhelgisgæslunnar, fluttu í nótt fjóra kafara, lögreglumann og tíu sérhæfða björgunarsveitarmenn norður í Sölvadal þar leit fer fram í Núpá. TF-LIF lenti við Saurbæjarkirkju laust eftir klukkan eitt í nótt þar sem kafararnir fóru frá borði. Þyrlan var við leit á svæðinu til 4:30 en þá var skyggni farið að versna.
TF-EIR var einnig kölluð út og tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli með tíu björgunarsveitarmenn klukkan 2:50 og lenti á Akureyrarflugvelli með björgunarsveitarmennina á fimmta tímanum. TF-EIR flaug að því búnu aftur til Reykjavíkur en TF-LIF er til taks á Akureyri.
Meðfylgjandi myndir voru teknar örfáum mínútum fyrir brottför frá Keflavík.
Björgunarsveitarmenn, starfsmenn Landhelgisgæslunnar og aðrir sérfræðingar voru um borð í vélinni sem fór til Akureyrar.
Jónas Þorvaldsson, starfsmaður séraðgerða- og sprengjueyðingarsviðs. Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar eru sömuleiðis kafarar.
Búnaður viðbragðsaðila um borð í vélinni.
Bíll séraðgerðasviðs var með í för.
Hercules flugvélin danska á Keflavíkurflugvelli.
Myndir: Landhelgisgæslan
https://gamli.frettatiminn.is/2019/12/12/madurinn-sem-fell-i-nupa-er-enn-ofundinn/