Ölvaður ökumaður olli umferðarslysi og er vistaður í fangaklefa
Talsver erill hefur verið hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt og nokkuð var um kvartanir um samkvæmishávaða þá gistu fimm manns fangaklefa. Hér eru nokkur þeirra mála sem komu inn á borð lögreglu.
Sautján ára ökumaður var stöðvaður í Kópavogi upp úr miðnætti, þar sem hann ók á 145 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 80 kílómetrar á klst. Málið var afgreitt með vettvangsskýrslu og foreldrum.
Ökumaður var stöðvaður í miðbænum sem reyndist vera undir áhrifum fíkniefna. Í framhaldi kom í ljós að ökumaður var í ólöglegri dvöl á landinu og var hann vistaður í fangaklefa á meðan mál hans er í skoðun.
Um hálf tíu í gærkvöld varð árekstur tveggja bifreiða í Hafnarfirði, engin slys urðu á fólki en annar ökumaðurinn var ölvaður og var hann vistaður í fangaklefa.
Klukkan 22:16 var ökumaður stöðvaður fyrir of hraðan akstur þar sem hann ók á 137 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 80 kílómetrar á klst. Einnig reyndist ökumaðurinn vera undir áhrifum áfengis.
Afskipti voru höfð af 14 ára ungmennum sem voru undir áhrifum áfengis í hverfi 113, málið afgreitt með foreldrum ásamt því að barnaverndayfirvöldum verður tilkynnt um málið. Þá voru tveir aðilar handteknir og vistaðir í fangaklefa vegna líkamsárásar í Mosfellsbæ, en þeir bíða skýrslutöku þegar af þeim rennur.
Töluvert var um akstur undir áhrifum fíkniefna og ölvunar í nótt auk þess sem sumir voru ekki með ökuréttindi vegna ítrekaðra brota.