Covid-19-smit á blóð- og krabbameinslækningadeild Landspítala
Inniliggjandi sjúklingur á blóð- og krabbameinslækningadeild Landspítala (11EG) fékk jákvætt svar við Covid-19 skimun um kl. 20 í kvöld, miðvikudaginn 13. janúar. Blóð- og krabbameinslækningadeild hefur því verið lokuð fyrir nýjum innlögnum, en er þó í fullri starfsemi. Um 30 sjúklingar og 30 starfsmenn verða skimaðir snemma í fyrramálið, fimmtudaginn 14. janúar. Um hádegisbil ættu fyrstu niðurstöður úr þeirri skimum að liggja fyrir. Viðkomandi einstaklingar eru ýmist í sóttkví eða vinnusóttkví B þar til þær niðurstöður berast. Samhliða hefur verið gripið hefur verið til ítrustu sóttvarnaaðgerða á deildinni.
Ekki liggur fyrir hvernig sjúklingurinn smitaðist, en þó er talið líklegast að sjúklingurinn hafi þegar við innlögn verið smitaður. Smitrakning stendur yfir. Sjúklingurinn var lagður inn á 11EG síðdegis í gær, þriðjudaginn 12. Janúar. Skimun leiddi í ljós virkt Covid-19 smit á níunda tímanum í kvöld. Sjúklingurinn hefur verið fluttur á smitsjúkdómadeild Landspítala (A7) í Fossvogi og settur í einangrun, vegna veikinda sinna.
Sólarhringur er síðan Landspítali þurfti að grípa til svipaðs viðbragðs vegna smits sem kom upp á hjartadeild. Þetta eru alvarlegir atburðir í starfsemi spítalans og viðbragðið í kjölfarið því ætíð umfangsmikið og útbreitt. Aðrar deildir munu aðstoða 11EG eftir þörfum og vonir standa til þess að þjónusta spítalans við þennan viðkvæma sjúklingahóp verði órofin og hnökralaus.
Discussion about this post