,,Hafa þegar fundað með umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundi Inga Guðbrandssyni, en bíða enn fundarboðunar frá forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur og fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssyni“
Föstudaginn 15. mars mun fjórða verkfallið fyrir loftslagið eiga sér stað hér á landi. Að þessu sinni fer verkfallið fram sem hluti af alþjóðlegu verkfalli, en loftslagsverkföll munu eiga sér stað á sama tíma í tæplega 100 löndum og yfir 1200 borgum og bæjum [1]. Verkfallið er hluti af alþjóðlegri öldu ungmenna sem rísa upp að fordæmi hinnar sænsku Gretu Thunberg og mun 15. mars marka hennar þrítugustu viku í loftslagsverkfalli. Fleiri en 12.000 vísindamenn og fræðimenn hafa skrifað undir stuðningsyfirlýsingu við verkföllin [2]. Alþjóðlegt loftslagsverkfall föstudaginn 15. mars:
Verkfallið hér á landi mun fara fram í Reykjavík og á Akureyri. Í Reykjavík verður safnast saman fyrir framan Hallgrímskirkju klukkan 12 og gengið niður á Austurvöll þar sem hið eiginlega verkfall fer fram með ávörpum og samstöðu. Verkfallið á Akureyri fer fram á ráðhústorgi klukkan 12 til 13.
Í síðasta verkfalli söfnuðust saman um 400 manns á Austurvelli, flest börn á grunnskólaaldri, og kröfðust aukinna aðgerða vegna loftslagsmála.
Stjórnvöld þurfa að grípa til aukinna og metnaðarfyllri aðgerða strax og auka fjárframlög í málaflokkinn. Samkvæmt Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) þurfa ríki heims að verja árlega 2,5% af vergri landsframleiðslu í loftslagsmál fram til 2035 ef halda á hnattrænni hlýnun innan við 1,5°C [3].
Ríkisstjórn Íslands hefur sett sér aðgerðaráætlun í loftslagsmálum en fjármagnið sem er eyrnamerkt henni hljóðar einungis upp á 0,05% af landsframleiðslu og því má betur ef duga skal. Atvinnulífið þarf einnig að axla ábyrgð og ráðast samstundis í aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Krafa verkfallsins er að enn verði aukið í, enda liggur það í augum uppi að ef ekki verður gert betur mun það falla á komandi kynslóðir að taka afleiðingunum.
Forsvarsmenn loftslagsverkfallsins hafa þegar fundað með umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundi Inga Guðbrandssyni, en bíða enn fundarboðunar frá forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur og fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssyni.