Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar fólk sérstaklega við svikum sem eru að eiga sér stað um þessar mundir á netinu og í gegnum síma. Alþjóðalögreglan (INTERPOL) og Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) hafa einnig tilkynnt um svik sem eru að eiga sér stað út um allan heim, þar sem verið er að setja upp svikasíður eða hringja í fólk og það blekkt til að gefa upp upplýsingar eða greiða fyrir vörur sem ekki eru til.
Í tengslum við Covid-19 er verið að reyna að svindla á fólki með vörur sem mikil eftirspurn er eftir. Þetta eru þá vörur eins og öndunarmaskar, handspritt o.fl. í þeim dúr.
Fólk er beðið um að vera á varðbergi vegna slíkra blekkinga og svika, en nú þegar hefur verið tilkynnt um slíkar blekkingar hér á landi. Þetta á t.d. við um Instagramsíðu þar sem fólk var blekkt að Landlæknisembættið væri að hafa samband gegnum þá síðu.
Rakningarteymi almannavarna er að hafa samband við fólk um þessar mundir vegna Covid-19 veirunnar, en fólk á að hafa í huga að það er aldrei spurt um lykilorð, notendanöfn eða greiðsluupplýsingar í þeim samtölum.