Þegar móðir Jóns og hans mesti áhrifavaldur fellur frá verða alger umskipti í lífi hans. Með uppáklætt líkið í aftursætinu og hundinn Brésnef við hlið sér tekst hann á hendur ferð þvert yfir landið til að heiðra hennar síðustu ósk. En mamma hefur ekki sagt sitt síðasta.
Hilmar Oddsson leikstýrði myndinni og skrifaði handritið. Með aðalhlutverk fara Þröstur Leó Gunnarsson, Kristbjörg Kjeld, Tómas Lemarquis og Hera Hilmars. Framleiðandi myndarinnar er Hlín Jóhannesdóttir hjá Ursus Parvus.
Myndin lýsir hugarheimi og ævi Jóns, sem Þröstur Leó leikur af mjög sannfærandi hætti. Jón sem er afdalamaður er upptekinn af fortíð sinni og tengsl hans við móður sína sem Kristbjörg Keld leikur af sinni alkunnu snilld, eru mjög náin. Hún undirbýr dauða sinn og spilar Jón þar stærsta hlutverkið sem aðstoðarmaður hennar.
Myndin gerist á landsbyggðinni í kringum 1970 og nær vel anda þess tíma sem og þankagangi fólks á einangruðum sveitabæjum. Það er vel þess virði að horfa á þessa einstöku mynd og leikarar eiga hrós skilið fyrir góðan leik sem og aðrir sem koma að verkinu. Sjón er sögu ríkari.
https://youtu.be/KTFb6oODhy0