Ísafjörður á fögrum sumardegi.Byggðastofnun spáir því að að byggð á Vestfjörðum muni hrynja á næstu áratugum. Samkvæmt spánni mun íbúum fækka um 75% frá 2017 til 2066. Í stað 7.000 íbúa nú munu verða 2.000 manns í fjórðungnum. Þetta þýðir einfaldlega að samfelld byggð slitnar í sundur og eftir verða fáar vanburðugar leyfar af þorpum. Í þessari spá er ekki gert ráð fyrir því, sem þó er vitað, að þegar fólki fækkar niður fyrir ákveðin þolmörk gefast íbúarnir upp og taka upp tjaldhæla sína, allir sem einn, og flytjast um set suður á bóginn.
Kristinn H. Gunnarson
Þessi svartsýna spá þarf ekki að koma neinum á óvart. Frá 1980 hefur verið samfellt undanhald á Vestfjörðum, í fyrstu hægfara en svo með vaxandi hraða. Frá 1980 hefur Vestfirðingum fækkað um 33%. Það svarar til þess að þriðji hver maður er fluttur í burtu. íbúarnir voru um 10.500 en eru nú orðnir færri en 7.000. Þetta hefur gerst á aðeins 38 árum. Spáin fyrir næstu 50 ár er einfaldlega í fullu samræmi við reynsluna.
2.900 manna tap á Ísafirði
Sterkasta svæði Vestfirðinga hefur ávallt verið Ísafjörður. Í Skultulsfirðinum hefur íbúum fækkað úr 3.500 í 2.600 á þessu tímabili. Það er ekki bara að fólki hefur beinlínis fækkað heldur hefur þjóðinni fjölgað á sama tíma og Vestfirðir hafa farið á mis við fjölgunina. Hlutfall Vestfirðinga af landsmönnum var 4,6% en er nú aðeins 2,0%. Ef Ísfirðingar hefðu haldið óbreyttri hlutdeild hefði þeim ekki fækkað um 900 heldur fjölgað um 1.900 manns. Í stað þess að 5.400 byggju við Skutulsfjörð búa þar núna 2.500. Tap Ísfirðinga er ekki aðeins 900 manns heldur 2.900 manns. Á sama hátt má reikna út að það ættu að búa 16.000 manns á Vestfjörðum við óbreytta hlutdeild af þjóðinni í stað 7.000. Það vantar 9.000 manns.
Afturförin kostar peninga
Afturför í íbúaþróun kostar peninga. Laun á Vestfjörðum hafa lækkað í samanburði við aðra landshluta. Hagvöxtur á Vestfjörðum hefur verið minni en víðast hvar annars staðar. Út úr hagkerfi landshlutans hafa verið teknir hundruð milljarða króna þegar horft er yfir tímabilið frá 1980. Verðmæti fasteigna hefur fallið í takt við framsal kvótans úr fjórðungnum og frá 1994 er verðfallið ekki minna en um 60 milljörðum króna sem svarar til um 12 milljónum króna að jafnaði á hverja íbúð. Þetta er tjón einstaklinganna.
Íbúaþróunin er birtingarmynd af grófum lífskjaraþjófnaði. Verðmæti hafa verið flutt hreppaflutningi úr fjórðungnum. Engar bætur hafa verið greiddar. Engar bætur hafa verið boðnar. Engin krafa um bætur hefur verið sett fram.
Spáin líklegasta niðurstaðan
Nú má benda á að spá Byggðastofnunar sé aðeins framreikningur á fortíðinni. Gert sé ráð fyrir að þróunin verði næstu áratugina eins og hún var þá síðustu. Það má líka benda á að spáin sé ekkert náttúrulögmál og horfunum megi breyta með einföldum hætti til betri vegar og sé það gert muni sól skína um fjöll og firði og Vestfirðingar munu leika á lófum sem aldrei fyrr.
Allt þetta er rétt. Þróunin er mannanna verk. Það eru löngu þekkt úrræðin til þess að bæta úr. Það er bara spurningin um viljann. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Það er ekki vilji til þess að beita réttu ráðunum. Niðurlægingin síðustu 30 ár varð vegna þess að pólitískur vilji var til þess að styrkja höfuðborgarsvæðið. Eftir því sem liðið hefur á tímabilið veiktist staða Vestfirðinga og flestra annara hluta landsbyggðarinnar og að sama skapi hefur höfuðborgarsvæðið styrkst. Nú stöndum við í þeim sporum að það eru að verða ráðandi viðhorf að ekki eigi að efla atvinnulíf á Vestfjörðum eða byggð að öðru leyti. Hver opinbera stofnunin á fætur annarri, að ekki sé talað um alls kyns samtök, leggst harkalega gegn nauðsynlegum framfaramálum og meðhöndlar Vestfirði sem náttúrusvæði sem hafi forgang fram yfir mannlífið þar. Að öllum atriðum virktum er það líklegasta niðurstaðan að spá Byggðastofnunar gangi eftir.
Tökum valdið heim
Það eru nægar auðlindir til lands og sjávar á Vestfjörðum til þess að fóstra öfluga og vaxandi byggð í hverjum firði og hverri vík á Vestfjörðum. Skilyrðin til þróttmikils mannslífs eru síst verri á Vestfjörðum en annars staðar. En til þess þarf að hagnýta kostina í þágu íbúanna. Vestfirðingar hafa meira en nóga reynslu af núverandi skipan mála til þess að fullreynt er að treysta öðrum fyrir veigamestu þáttunum. Vestfirðingar verða að taka til sín það vald sem nauðsynlegt er. Á það við um nýtingu fiskimiða, vatnsfalla sem um skipulag, umhverfismat og framkvæmdir. Það er verkefni Vestfirðinga á næstunni að fylkja sér um aðgerðir og gera ríkisstjórn og embættisvaldinu ljóst að þeim verður hrint í framkvæmt með góðu eða illu. Spáin um hrun byggðar segir okkur að engan tíma má missa. Opinber uppreisn er ekki lengur útilokuð sem úrræði.
Kristinn H. Gunnarsson