Flokkur fólksins hefur lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að Alþingi skuli leggja þriðja orkupakkann undir þjóðina í formi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Flutningsmaður tillögunar var Inga Sæland formaður Flokks fólksins en tillöguna má lesa í heild sinni hér að neðan: Tillaga um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu
Eftirfarandi spurning verði borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni: „Vilt þú að Alþingi heimili ríkisstjórn Íslands að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017, frá 5. maí 2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (þriðji orkupakkinn) og aflétta stjórnskipulegum fyrirvara?
❏ Já.
❏ Nei.“
Einnig verði á kjörseðlinum eftirfarandi skýringartexti: „Með þriðja orkupakkanum er átt við eftirfarandi gerðir:
1. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 713/2009 frá 13. júlí 2009 um að koma á fót Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði.
2. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 714/2009 frá 13. júlí 2009 um skilyrði fyrir aðgangi að neti fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri og um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 1228/2003.
3. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 715/2009 frá 13. júlí 2009 um skilyrði fyrir aðgangi að flutningskerfum fyrir jarðgas og um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 1775/2005.
4. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 543/2013 frá 14. júní 2013 um afhendingu og birtingu gagna á raforkumörkuðum og um breytingu á I. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 714/2009.
5. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/72/EB frá 13. júlí 2009 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku og um niðurfellingu á tilskipun 2003/54/EB.
6. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/73/EB frá 13. júlí 2009 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir jarðgas og um niðurfellingu á tilskipun 2003/55/EB.
7. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2010/685/ESB frá 10. nóvember 2010 um breytingu á 3. kafla I. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 715/2009 um skilyrði fyrir aðgangi að flutningskerfum fyrir jarðgas.
8. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2012/490/ESB frá 24. ágúst 2012 um breytingu á I. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 715/2009 um skilyrði fyrir aðgangi að flutningskerfum fyrir jarðgas.“